Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

"Við skulum berjast en fjandakornið, höfum þá gaman af því"

Var að lesa stórskemmtilega grein á bloggsíðu Óla Björns Kárasonar þar sem hann segir frá því hvernig andrúmsloftið er á kosningarskrifstofu íhaldsins á Sauðárkróki.

Góð grein sem ég mæli með að þið lítið á.


Olíuhreinsistöð

Olíuhreinsistöð eða ekki olíuhreinsistöð hefur verið mál málana þessa dagana.  Mikið hefur verið rætt um þetta þar sem ég hef komið og sitt sýnist hverjum.  Við lestur bloggsíðna þá sýnist mér einnig að aðilar skiptast í tvær fylkingar, með og á móti þessu fyrirbæri.

Ég lét hafa eftir mér á bb.is í vikunni að ekki væri hægt að hafna þessu algerlega án þess að skoða þetta betur.  Það er erfitt fyrir hvaða sveitarfélag sem er að skoða ekki einu sinni hvort og þá hvernig hægt væri að koma starfsemi sem þessari fyrir.

Mér finnst það hinsvegar skipta miklu máli hvernig þessi starfsemi kemur til með að falla að þeirri ímynd sem við viljum hafa hér á Vestfjörðum - viljum við hafa stóriðjulausa Vestfirði og þá hvernig skilgreinum við hvað er stóriðja og hvað er ekki stóriðja. 

Ég játa það alveg að þegar ég heyrði þetta fyrst þá sagði ég þvert nei - svona á ekki heima hér á landi.  Þegar ég svo velti þessu fyrir mér og hugsa meira og meira um þetta þá er þessi hugmynd ekki svo galin.  Ég tek það hinsvegar fram að ég veit nánast ekkert um hvernig slíkt fyrirbæri rekur sig, ekki nema það sem hefur komið fram í fréttum í vikunni um málið. 

Ég vona nú að allra næstu daga muni fulltrúar þessa fyrirtækis koma hingað vestur til að halda fund með íbúum og kynna þessa hugmynd.  Leyfa okkur að vita hvað í þessu felst og hvað þetta muni þýða fyrir okkur hér.

Þetta má að minnsta kosti skoða og velta fyrir sér - staðsetning er kannski ekki aðalmálið að svo stöddu heldur hvort þessum mönnum er alvara og þá hvort að við viljum fá svona fyrirtæki hingað vestur eður ei.

Einhverjar samsæriskenningar hafa komið fram í vikunni um að nú séu stjórnvöld að blása ryki í augu íbúa með því að koma með svona galna hugmynd fram.  Ég blæs á allar slíkar kenningar og vísa þeim til föðurhúsana.  Okkur ber að skoða allar þær hugmyndir sem koma fram til að efla hér byggð, hvort sem hún er gömul eða ný af nálinni.  Vona að allir aðilar komi sér a.m.k. saman um það að skoða beri málið nánar og taka svo ákvörðun út frá því.


Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar og takk kærlega fyrir veturinn.

 

Það hefur margt gerst í vestfirsku samfélagi að undanförnu sem ég mun blogga um næstu daga en á meðan, njótið dagsins í faðmi fjölskyldu og vina.

 


Hvað er þetta með auglýsingarnar hjá Frjálslynda flokknum

Ég held að Frjálslyndi flokkurinn ætti nú að fá sér yfirlesara á auglýsingarnar hjá sér.  Það er svakalegt að lesa þær.

Í dag er birt auglýsing frá þeim í morgunblaðinu og fréttablaðinu og hefur villupúkinn ekki verið notaður við yfirlesturinn á þeim - þar stendur FRJÁLSYNDI FLOKKURINN    Þetta er önnur auglýsingin á skömmum tíma þar sem þeir gera svona klaufarlega villu í texta.

Jæja, svona er þetta - ég hló hátt!


37.Landsfundur Sjálfstæðisflokksins

Þá er 37.Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafinn í Laugardalshöll.  Í höllina eru komnir rúmlega 2000 þingfulltrúar til að móta stefnu flokksins.

Það er alltaf mjög gaman að koma á landsfund.  Hitta gamla og góða vini og til að kynnast sjálfstæðismönnum alls staðar af landinu.  Þetta er líka gjörið tækifæri til að hafa áhrif á stefnu flokksins og tryggja að hann hafi í stefnu sinni málefni sem koma minni byggð vel. 

Ég ætla að skella mér í nokkrar nefndir á morgun, reyna eftir fremsta megni að koma mínum málum á framfæri í þeim.

Setningarræða Geirs H. Haarde var góð - ræðuna er hægt að nálgast í heild sinni hér

Ég sé á mbl.is að aðalfréttin úr ræðunni er sú sýn formannsins að greiða öllum landsmönnum lágmarkslífeyrir úr lífeyrissjóðunum, hann nefndi 25 þúsund sem myndi koma til hliðar við greiðslur úr almannavarnarkerfinu.  Þannig verði komið til móts við þá, sem ekki hafa getað aflað sér neinna eða einungis smávægilegra réttinda til greiðslna úr lífeyrissjóðum.  Þetta er frábær sýn sem er þarna sett fram og vonandi mun hún ná fram að ganga á fundinum.

Endilega fylgist með fundinum á heimasíðu flokksins  www.xd.is 

 

 


Hverjum þykir sinn fugl fagur!

Í gærkveldi hófst formlega kosningarsjónvarp RÚV ohf með því að formenn þeirra flokka sem hafa fengið úthlutuðum listabókstaf tókust á.

Þetta var fyrir margt mjög skemmtilegur þáttur - uppröðunin í þáttinn var sérstök að mér fannst - stjórnarflokkarnir saman, Addi Kiddi Gau á milli þeirra ásamt Ómari og svo sat Ingibjörg og Steingrímur saman.

Mér fannst í raun engin einn bera af þessum fundi - ég datt í það að horfa á kjækina í honum Jóni, hendurnar á honum Geir (nuddandi þumlunum saman), Ómar komst aldrei að, bendandi út í loftið og reyndi hvað hann gat til að koma sínu á framfæri.  Ingibjörg fannst mér detta í röflgírinn og gerði eins og Ómar alltaf að benda eitthvað út í loftið.  Steingrímur fannst mér um tíma vera að detta úr stólnum því honum lá svo mikið á hjarta.  Það var í raun ekkert nýtt sem ég heyrði í þessum þætti. 

Mér persónulega finnst Geir vera sterkur leiðtogi,  ég er ekki einn þeirrar skoðunar ef litið er til síðustu skoðanakönnun Capacent.  Steingrímur hefur sterkar skoðanir á málunum og hefur barist fyrir þeim.  Ég virði Steingrím mikið fyrir þessar skoðanir, þó ég sé þeim alls ekki sammála.

Ingibjörg fannst mér vera góður borgarstjóri á sínum tíma.  Ég óttaðist að hún myndi ná að leiða Samfylkinguna til stórs sigurs í kosningunum 2003 en hún tapaði því úr höndunum á sér þá og hefur, að mínu mati, ekki náð sér upp úr því.  Mér finnst hún föst í röflgírnum og sveiflast fram og til baka, afturábak og áfram eftir því hvernig umræðan þróast í samfélaginu.  Mér finnst hún ekki hafa neina fasta skoðun á málums.

Sem sagt ekkert nýtt sem kom fram á fundinum í gær - hef heyrt þetta allt áður - en það er alveg greinilegt af lestri blogga hér á mbl.is að "Hverjum þykir sinn fugl fagur". 


Páskafríið

Ég hef ekki mikið verið að blogga undanfarna daga - hef notið þess að vera í fríi og safna kröftum undir komandi átök.

Páskarnir hafa farið í það að vera með fjölskyldunni og ég vona að flestir hafi gert það sama.

Margir hafa lagt leið sína hingað til Ísafjarðar þessa páskahelgi -  einhver sagði mér að margir hefðu komið hingað þrátt fyrir að hafa ekki haft gistingu.  Ég vona nú að allir hafi haft í einhver húsaskjól að leita í og liðið þar vel.

Næstu vikur fara í kosningar og aftur kosningar - ég mun blogga mjög reglulega og leyfa ykkur að fylgjast með minni sýn á kosningarbaráttuna.


Páskahátíð

Ég óska þér og þínum gleðilegra páska!


Óskemmtileg reynsla

Þegar mál eru til meðferðar í bæjarráði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gengur stundum ýmislegt á. 

Eins og gefur að skilja eru nokkrar hliðar á nánast öllum málum og sitt sýnist hverjum um þá afgreiðslu sem síðan bæjarráð/bæjarstjórn tekur. 

Það er ýmislegt sem gengur á, á meðan málin eru í vinnslu, margir hringja í bæjarfulltrúa og segja sína hlið á málinu, koma í heimsókn með gögn og útskýra sín mál og allir fram að þessu hafa verið mjög málefnalegir og kurteisir þegar þeir leggja sína skoðanir fram. 

Þetta hefur verið mér sem bæjarfulltrúa ómetanlegt við vinnu mína.  Þetta hefur gefið mér tækifæri til að heyra skoðanir þeirra sem að málinu koma áður en ég tek ákvörðun í málinu.  Ég tek síðan ákvörðun í málum út frá minni eigin sannfæringu þrátt fyrir að hafa fengið að heyra annað í gegnum tíðina.

Í gær varð ég og fjölskylda mín reyndar fyrir mjög óskemmtilegri reynslu. 

Það er mál til meðferðar í bæjarkerfinu sem ríkir óánægja með hjá aðilum tengdum því.  Ég var að koma af sjúkrahúsinu, var þar í heimsókn hjá veikum ættingja. Þegar aðili að þessu máli tók mig tali.  Sá einstaklingur var kurteis í fyrstu, útskýrði sína hlið málsins sem hefur margoft komið fram.  Ég sagði viðkomandi mína skoðun á málinu og þá byrjuðu upphrópanir og skammir sem enduðu með fúkyrðum og svívirðingum í minn garð.  Ég kippti mér ekki upp við þetta - þetta hefur komið fyrir og þvi miður alltaf jafn sorglegt þegar einstaklingar hafa ekkert annað fram að færa nema persónulegar árásir á einstaklinga sem eru að reyna að vinna sína vinnu að bestu sannfæringu.

Því miður tók ekkert  betra við!

Ég gekk áleiðis heim og náði þar í þrjú börn og ferðinni var heitið niður í bæ.  Þegar ég var kominn áleiðis niður í bæ kom sami einstaklingur, sem ég sagði frá hér að ofan, stökk út úr bíl sínum og fór að ausa yfir mig fúkyrðum, svívirðingum og blótsyrðum sem gerðu það að verkum að börnin sem ég var með urðu dauðskelkuð og vildu forða sér í burtu.  Það gerðum við og forðuðum okkur. 

Börnin urðu vör um sig eftir þetta en því miður þá gerðist þetta aftur - ég átti erindi á bæjarskrifstofurnar og þar kom umræddur einstaklingur og jós ennþá meiri og verri fúkyrðum að mér sem börnin urðu aftur vitni af.  Farið var með börnin í burtu á meðan ég reyndi að ræða við einstaklinginn og reyndi að láta hann átta sig á því að það eru tími og staður fyrir allt - þetta væri ekki tíminn og staðurinn til að láta svona.  Það gekk ekki eftir og viðkomandi jós ennþá fleiri svívirðingum í minn garð þegar ég gekk í burtu.

Ég hef fram að þessu aldrei upplifað annað eins sem bæjarfulltrúi í þessu bæjarfélagi.  Fólk hefur haft sterkar skoðanir á sínum málum, sem er vel og kann ég að meta slíkt.  Samt þegar fólk hefur ekkert fram að færa nema persónulegar árásir á mig og mína fjölskyldu þá er mér nóg boðið.  Ég tilkynnti umrætt tilfelli til lögreglu því mér er ekki sama hvað fólk gerir og segir þegar ég er með börn mín og fjölskyldu nærri.

Börnin urðu skelkuð og það tók talsverðan tíma í gær að róa þau niður og reyna að útskýra fyrir þeim hegðun einstaklingsins.  


Til hamingju með árangurinn SFÍ

Það er virkilega gaman að heyra hvað krakkarnir í SFÍ hafa staðið sig vel á Unglingalandsmótinu á skíðum sem var haldið um helgina.

Ég vil nota þetta tækifæri hér til að óska öllum keppendur og aðstandendum þeirra hjartanlega til hamingju með árangurinn og einnig til hamingju með að hafa gert mótið eins glæsilegt og raun ber vitni.

Til að lesa betur um árangur keppenda SFÍ á mótinu má lesa þessa frétt á http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=98835

Enn og aftur til hamingju!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband