Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Skerðing verður á þorskkvóta næsta fiskveiðiár

Þessi orð lét Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, falla á fundi hér á Ísafirði í kvöld en ekki lét hann uppi hversu mikil skerðingin yrði.

Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að þorskkvóti næsta fiskveiðiárs verði 130 þús. tonn sem er 33% skerðing frá núverandi kvóta.  Sé farið eftir ráðum Hafró myndi það þýða að þjóðarbúið yrði af um 15-20 milljarða tekjum á næsta ári.  Reyndar hefur Hafró nú sagt í nokkur ár að við séum að veiða of mikið og fiskifræðingur hjá Hafró sagði í þætti á Rúv á sunnudag að í raun væri 130 þús. tonn of mikið, 100 þús. tonn væri nær lagi.

Hagfræðistofnun kynnti í dag niðurstöður rannsóknar sem stofnunin hefur unnið að á efnahagslegum áhrifum samdráttar á heildarafla á fiskimiðum og breytingar á þeirri aflareglu sem fiskveiðistjórnunin hefur byggst á.  Einar Kr. kom aðeins inn á skýrsluna á fundinum í kvöld.   Í skýrslunni segir að 45% af efnahagskerfi Vestfjarða kemur frá sjávarútvegi og er þorskurinn mjög stór hluti þess eða t.d. 60% af efnahagskerfi Bolungarvíkur, 35% af efnahagskerfi Ísafjarðar osfrv.

Ef farið yrði að ráðleggingum Hafró myndi það þýða mikla skerðinga tekna fyrir byggðalög á Vestfjörðum, það mikla að ég leyfi mér að efast að þau myndu þola slíkt.  Einar Kr. fór yfir það á fundinum að skýrsla Hagfræðistofnunar hefði verið kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.  Fór hann yfir það að ljóst er að ef það yrði farið eftir tillögum Hafró yrði að koma til mótvægisaðgerða fyrir þau svæði sem yrðu hvað verst úti.  Skýrsla Hagfræðistofnunar sýnir skýrt hvaða svæði um ræðir. 

Einar lagði á það mikla áherslu á fundinum að skerðingin yrði tímabundin ákvörðun og sagði að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar yrðu í raun þrennskonar.

1. Þetta er tímabundin ákvörðun - Byggðastofnun yrði gert kleift að bregðast við vanda fyrirtækja á meðan á henni stendur. 

2. Sveitarfélögum myndi verða gefið rými til að ráðast í framkvæmdir

3. Farið yrði í það að byggja upp grunngerðir samfélagana með t.d. áherslu á að auka menntunarstig þeirra, bæta vegasamgöngur og framkvæmdum við háhraðatengingar yrði flýtt.

Já - þannig lítur það út.  Það eru ekki nema rétt tæpar tvær vikur síðan Einar Kr. var hér á ferð með Össuri, iðnaðarráðherra, og hittu þeir fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á fundi í Edinborg.  Það voru alveg skýr skilaboð frá þeim fundi að íbúar svæðisins vilja ekki neina ölmusu, vilja eingöngu að svæðið verði gert samkeppnisfært á við önnur svæði á landinu.  Það var alveg skýrt einnig á fundinum að bæjarstjórn gerði kröfu á hendur ríkisvaldinu að þeir sýndu vilja til verka og framkvæmdu eitthvað sýnilegt sem gerði það að verkum að almenningur fengi trú á svæðið.

Frá þessum fundi til dagsins í dag hefur nú ekki mikið gerst - ekkert hefur heyrst frá ríkisstjórninni um aðgerðir sem sýna að þeir hafa trú á Vestfjörðum.  Um 200 einstaklingar hafa verið að missa vinnuna undanfarna 3 mánuði og þau 80 störf sem Vestfjarðanefndin fjallaði um ná ekki upp í það.  Þau 50 störf sem koma fram sem hugmyndir, og fylgja með skýrslunni, ná ekki einu sinni að bæta atvinnumissin upp.  Fleira þarf að koma til, miklu meira.  Ríkisstjórnin þarf að sýna það að þeim er alvara með að byggja hér upp, sýna ibúum hér að við skiptum máli.  Hræddur er ég um að ef um 40 þús. manns misstu vinnuna á höfuðborgarsvæðinu á 3 mánuðum þá yrði eitthvað gert í hvelli.

Staðan er alvarleg - skerðing þorskkvóta hefur slæm áhrif byggð á Vestfjörðum og til mótvægisaðgerða þarf að koma, aðgerða sem skipta einhverju máli og færa íbúum hér aftur trúnna á samfélagið - eða eins og Halldór bæjarstjóri sagði á fundinum "aðgerðirnar verða að vega þungt".

Nú bíð ég óg bíð spenntur eftir því að sjá hvað Einar Kr. ætlar að leggja til mikla skerðing - til hvaða mótvægisaðgerða ríkisstjórnin ætlar þá að ráðast í í framhaldinu og hvort að þær aðgerðir vegi þungt.

 


Ótímabundin lokun Miðfells

Enn berast slæmar fréttir héðan frá Ísafjarðarbæ - lokun Miðfells og um 40 starfsmenn þess eru sendir heim á launum, í bili að minnsta kosti. 

Því miður þá kemur þessi frétt mér ekki á óvart þó ég vonaði svo sannarlega að ekki myndi koma til þessa. 

Ég lét mig dreyma um að fyrirtækið myndi ná að rétta úr kútnum og ná að halda velli þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður.  Sterk staða Krónunar og erfið staða á rækjumörkuðum er ástæða þess að forsjármenn fyrirtækisins taka þessa ákvörðun á þessum tímapunkti.  Heyrst hefur að nýtt fjármagn til fyrirtækisins og frysting lána hjá Byggðastofnun (eins og vestfjarðarnefndin setti fram í skýrslu sinni til forsætisráðherra) gæti orðið til þess að fyrirtækið myndi hefja vinnslu að nýju. 

Þetta með frystingu lána er eitt af þeim málum sem ég mun spyrja Einar Kristinn að á morgun en hann verður með fund hér á Ísafirði í dag, þriðjudag.

Það verður fróðlegt að heyra hvað Einar Kr. hefur um málið að segja.  Hann ásamt Össuri áttu að fylgjast með málum hér vestra fyrir hönd ríkisstjórnar. 

Í fyrramálið (þriðjudag) verður svo lögð fram skýrsla um þýðingu fyrir byggð í landinu ef kvótinn verður skorinn niður í samræmi við tillögur Hafró.  Verður fróðlegt að heyra hvað stendur í þeirri góðu skýrslu.  Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ályktaði á síðasta bæjarstjórnarfundi um þennan niðurskurð og í þeirri ályktun stendur meðal annars "...beinir bæjarstjórn þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar að gripið verði þegar í stað til markvissra mótvægisaðgerða í þeim byggðum sem harðast verða úti vegna niðurskurðarins"

Nú er vonandi að á bæjarstjórn verði hlustað og eftir þessu verði farið svo við þurfum ekki að fá fleiri neikvæðar fréttir af atvinnumálum hér, það er komið nóg! 

 


Guðni Geir hættur í pólitík - Svanlaug nýr oddviti Framsóknar

Á bæjarstjórnarfundi í dag lá fyrir bréf frá Guðna Geir Jóhannessyni, oddvita framsóknarmanna, þar sem hann sagði sig úr bæjarstjórn þar sem hann er að flytja úr bæjarfélaginu.

Þakka vil ég Guðna fyrir samstarfið á liðnum árum - það samstarf hefur verið farsælt.  Gott hefur verið að hafa Guðna með sér í mörgum málum en einnig hefur það verið erfitt að hafa hann á móti sér í öðrum málum. 

Bæjarstjórn lét bóka þakkir til Guðna Geirs fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins á liðnum árum og óskaði honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Svanlaug Guðnadóttir er tekinn við sem oddviti Framsóknarmanna og mun taka við af Guðna sem formaður bæjarráðs.  Geri ég nú ráð fyrir því einnig að hún taki við formennsku í hafnarstjórn og einnig setu í stjórn Fjórðungssambandsins en þar hefur Guðni setið, s.s. nóg að gera hjá Svönu á næstunni.

 


Kvóti og aftur kvóti er ekki lausnin á byggðaþróun landsins

Alveg er ég sammála honum Elliða.  Meiri kvóti leysir engan vanda í byggðamálum þjóðarinnar.

Ég tel að styrkja beri grunngerð samfélagsins eins og vegagerð, fjarskipti og þjónustu við íbúana.  Þarna getur ríkisstjórnin komið að málum með því að koma þessum svæðum inn í 21.öldina í vegamálum og fjarskiptum og einnig með því að aflétta af sveitarfélögum þeim skuldum sem þau bera af félagslega húsnæðiskerfinu sem ríkið "þvingaði" sveitafélögin út í á sínum tíma.

Með þessu tel ég að hægt væri að stöðva þá þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.  Dugar til að stöðva en ekki að snúa við - til að snúa við þarf kraft heimamanna að koma til og trú fjárfesta á svæðið.  Þegar það legst saman þá verður að mínu mati hægt að fjölga hér fólki sem mun leiða af sér að þjónusta verður mun betri.


mbl.is Nægur kvóti í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Áslaug!

Glæsileg viðurkenning fyrir mikla vinnu að ferðamálum á landsbyggðinni á undanförnum árum.

 Hjartanlega til hamingju með heiðursviðurkenningu hinnar íslensku fálkaorðu


Hætta að rífast!

Ég held að þaðSVo séu langflestir sammála því að kvótakerfið, í núverandi mynd, er ekki að uppfylla það sem lagt var til í upphafi þess.

Mér hefur hinsvegar ekki enn verið bennt á aðra miklu betri lausn sem gerir alla einstaklinga í voru samfélagi sátta.

Það sem sjávarútvegurinn þarf umfram allt er ró og friður um sín mál - hvernig sá friður kemst á er hinsvegar það sem menn deila um í dag.

Svona strákar hættið að rífast og reynið að finna leið sem gerir flesta sátta - slíkt hefur Einar Kristinn verið að vinna að í tengslum við "svörtu" skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.  Það verður vonandi til þess að sá friður sem ég nefndi náist um málið.


mbl.is Telur gagnrýni Einars Odds ekki trúverðuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfis - og útivistar Lýðháskóli að Núpi í Dýrafirði

Fyrir um þremur vikum síðan átti ég fund með framkvæmdarstjóra UMFÍ og Halldóri, bæjarstjóra,  varðandi hugmynd um að setja á laggirnar lýðháskóla að Núpi í Dýrafirði komið sem hefði á námskrá sinni umhverfismál og hugsanlega einnig útivistarmálefni. 

En hvað er Lýðháskóli og hvað hefur slíkur skóli að segja fyrir atvinnumál hér á Vestfjörðum.

Fyrst hvað er Lýðháskóli?

Í raun er Lýðháskóli ekki réttnefni fyrir skóla af þessari gerð - réttnefni væri í raun lífsleikniskóli.  Nemendur fá ekki einingar fyrir nám sitt heldur gefst þeim kostur að kynnast umhverfinu og útivist á sem fjölbreyttastan hátt á stórkostlegum stað í Dýrafirði og nágrenni.

Slíkt form af skóla er rekið í víða á Norðurlöndum og einnig um allan heim.  Systursamtök UMFÍ í Danmörku (kallast DGI) hafa komið að stofnun 6 skóla sem hafa íþróttir og leiðtogaþjálfun í sinni námskrá.  Allir eru þessir skólar sjálfstæðar rekstrareiningar.  Þeir eru reknir með fjármagni frá danska ríkinu og einnig með skólagjöldum.  Í Danmörku eru um 45-50 Íslendingar við nám hverju sinni og njóta þeir styrks frá UMFÍ til skólavistar. 

UMFÍ hefur nú öðlast talsverða reynslu af rekstri skólabúða að Laugum í Sælingsdal.  Sá gamli Héraðsskóli öðlaðist nýtt líf við þá starfsemi og í dag starfa á milli 10-15 einstaklingar við rekstur skólabúðana.  Þangað koma á milli 1500-2000 ungmenni yfir vetrarmánuðina og síðan er húsnæðið rekið sem sumarhótel. 

UMFÍ ásamt DGI hafa áhuga á því að koma hér að stofn Lýðháskóla og vilja leggja til þekkingu á rekstri slíkra skóla, tengslum við aðra Lýðháskóla í heiminum og beinagrind að skólanámskrá.  Við heimamenn getum síðan starfrækt skólann með stuðningi ríkisins, sem yrði að leggja til rekstrarfjármagn. 

En hvaða þýðingu hefur slíkur skóli fyrir atvinnulíf hér?

Ég sé fyrir mér að skólinn myndi hafa um 70-100 nemendur á hverjum tíma.  Nemendur myndu koma í 6- 10 mánaða dvöl og einnig myndu hingað koma nemendur annarra Lýðháskóla í styttri tíma (2-3 vikur í senn).  Þarna yrðu að vera um 10-15 einstaklingar sem ynnu beint við rekstur skólans yfir vetrartímann.  Tengt þessu yrði síðan hægt að tengja þetta við víkingaverkefnið og vinnu við það, einnig Gíslasögu verkefnið, hugmyndum Sæfara að sjósportmiðstöð Íslands, ég sé mér verkefni fyrir Borea Adventures í tengslum við komur nemenda annarra lýðháskóla, tengingu við Skrúð og þá Landbúnaðarháskólann, einnig tengingu við Háskólasetur.  Svo má sjá fyrir sér aukningu í flugi hingað vestur og betri nýtingu Þingeyrarflugvallar og svo störf í tengslum við verslun og þjónustu.  Margt fleira má einnig tengja við þetta svo sem skíðasvæðið í Tungudal, Hornstrandir og hugmyndir að friðlandi þar og svo margt annað.

Það er mitt mat að þetta sé ekkert nema jákvætt að taka vel í þessar hugmyndir UMFÍ og DGI og leita allra leiða til að þetta verði að veruleika. 

Nú er boltinn hjá okkur heimamönnum og næstu skref eru að mínu mati viðræður við ríkisvaldið um húsnæðið og rekstrarfé.  Sjávarútvegsráðherra og Iðnaðarráðherra voru hér vestra fyrir um viku og áttu þeir fund með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og var þessi hugmynd viðruð þar.  Tekið var jákvætt í þessa hugmynd og sagt að spennandi væri að skoða hana nánar.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband