Færsluflokkur: Bloggar
2.4.2007 | 10:44
100 ára afmæli UMFB
Í gær, sunnudag, var haldið upp á 100 ára afmæli Ungmennafélags Bolungarvíkur, það var stofnað 1.apríl 1907.
Það var haldin mikil veisla í Víkurbæ þar sem fjölmenni mætti til að fagna þessum tímamótum.
Ég mætti fyrir hönd HSV og færði UMFB 100 þúsund krónur að gjöf til þess að byggja upp knattspyrnusvæði félagsins. UMFB fékk einnig fleiri góðar gjafir og nánast allar voru til þess að byggja upp aðstöðu félagsins við knattspyrnusvæðið. Það verður því hægt að gera marga góða hluti þar í vor og sumar til eflingar félagsins og samfélagsins í heild.
UMFB hefur á síðustu árum verið í mikilli samvinnu og samstarfi við félög innan HSV. Þar má nefna golffélagið, sunddeildina, fótboltadeildina, körfuboltan. Krakkar hafa verið að æfa saman frá Ísafjarðarbæ, Súðavík, og Bolungarvík. Það hefur reynst ómetanlegt fyrir þessa krakka að fá að æfa og keppa saman. Árangurinn hefur einnig verið góður og samstaðan hjá þeim mikil.
Mér fannst gaman að heyra smá úrdrátt úr sögu félagsins í gær. Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar UMFÍ var stofnað á Þingvöllum í júni 1907 þá riðu Vestfirðingar á staðinn til að vera við undirritun stofnsamningsins. Eftir um viku ferðalag komust þeir á staðinn og stigu af baki. Ekki leið langur tími þangað til það fréttist til þeirra að áfengi var ekki veitt á staðnum og því stigu þeir á bak aftur og riðu beint heim á leið og skrifuðu ekki undir stofnsamninginn fyrr en nokkrum árum seinna.
Það má með sanni segja að tímarnir hafa breyst á þessum 100 árum. UMFB hefur staðið sig vel í uppbyggingu íþrótta - og æskulýðsstarfsemi í Bolungarvík á þessum tíma og ber að þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt mikið starf á sig í sögu félagsins.
Til hamingju með afmælið UMFB!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2007 | 07:12
Vígsla reiðhallar
Í gær, laugardaginn 31.mars, var vígsla reiðhallarinnar á Söndum í Dýrafirði. Það er hestamannafélagið Stormur sem hefur haft veg og vanda að byggingunni.
Vígslan var fjölmenn og virkilega gaman að sjá hversu margir voru mættir til að samfagna hestamönnum á þessum merkilega degi.
Þetta er glæsileg reiðhöll, góður aðgangur er að henni (þó að allt hafi verið í drullu vegna mikillar rigninga í gær) og allur frágangur er til fyrirmyndar á allan hátt. Það eru áhorfendabekkir með annarri langhliðinni á húsinu svo að aðstaða til sýninga og keppni er mjög góð.
Ég tók til máls fyrir hönd stjórnar Héraðssambandsins og færði Hestamannafélaginu Stormi að gjöf hnakk fyrir börn ásamt öllum fylgihlutum. Hnakkurinn mun vonandi nýtast vel þegar kynna þarf þessa göfugu íþrótt fyrir börnum í framtíðinni.
Það voru tveir kórar sem tóku lagið við góðar undirtektir í húsinu, línudans var stíginn og svo var þessi líka flotta töltsýning. Ræður voru fluttar af Einari Kristni, Magnúsi Stefánssyni, Rögnu Jóhannsdóttur og Halldóri bæjarstjóra. Þetta allt var síðan toppað með svakalegum veitingum - stríðstertum og heitu kakói.
Reiðhöllinn fékk nafnið Knapaskjól og hefur þegar verið stofnað rekstrarfélag um það. Kostnaður við höllina nam rétt rúmum 30 milljónum króna og stærstu hlutur þess fjármagns kom frá Landbúnaðarráðuneyti og svo var einkaaðili sem lagði til umtalsverða fjármuni. Ísafjarðarbær kom líka að fjármögnun byggingarinnar og svo eru margir einstaklingar og fyrirtæki sem hafa lagt mikla vinnu og fjármuni til að sjá þessa höll rísa af grunni.
Það er von mín að þessi reiðhöll muni gagnast í framtíðinni til þess að efla hestaíþróttina á starfssvæði HSV.
Til hamingju hestamenn
p.s. Hver veit nema maður fái einhverntímann að fara á bak í höllinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2007 | 02:02
Fylgi VG fellur hægt niður!
Sú skoðanakönnun sem birtist nýverið sýnir og sannar það sem margir voru búnir að spá - fylgi Íslandshreyfingarinnar kemur frá VG. Í þessari könnun fellur fylgi VG nokkuð jafnt á við fylgi Íslandshreyfingarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn hækkar sig um hálft prósentustig sem er vel amk er ljóst að ný framboð hafa ekki áhrif á fylgi flokksins.
Það framboð sem kynnt var í gær mun ekki gera neitt annað en að taka meira fylgi af VG og Samfylkingunni.
Ég tel einnig að fylgishrun VG sé vegna þess að nú eru kjósendur að gera sér grein fyrir því að það hefur í för með sér samfélagið setur í bakkgírinn ef að vinstri stjórn kemst til valda með VG í forystu.
VG er flokkurinn sem vill koma á fót netlöggu, flytja bankana úr landi til að jafna laun í landinu, hefur enga byggðastefnu (Jón Bjarnason gat a.m.k. ekki sagt frá henni í kosningarsjónvarpi stöðvar 2 á miðvikudaginn), flokkurinn sem vill stoppa allar stóriðjuframkvæmdir (þó að ýmsir sveitarstjórnarmenn flokksins séu því hlynntir) og koma með einhverjar aðrar lausnir í efnahagsmálum - lausnir sem þeir eru ekki ennþá farnir að útskýra. Kannski fá þeir einhverja töfralausn og kynna hana vikunni fyrir kosningar - hver veit?
Það vekur ennþá furðu mína að Íslandshreyfinginn sé með þetta þó 5% fylgi. Er þetta eingöngu fylgi sem stendur á bakvið þær vinsældir sem Ómar Ragnarsson hefur?
Það hefur mikið verið skrifað á heimasíðuna hans Ómars undanfarið. Þar er fólk að biðja um stefnu hans í nokkrum flokkum m.a. byggðamálum og efnahagsmálum. Engin svör koma frá honum sem í raun segja mér aðeins eitt að ekki hafa verið mótaðar neinar áherslur... nema í umhverfismálum.
Frjálslyndi flokkurinn er að hverfa - kominn með minna fylgi en Íslandshreyfinginn sem merkir að þeir koma varla inn manni. Það hefur mikið verið skrafað um það á kaffistofum hér i bæ hvort að nú séu tími Frjálslyndra runninn sitt skeið, það blæs a.m.k. vel á móti hjá þeim núna.
Þetta verða spennandi vikur fram að kosningum. Nú eru flokkarnir að kynna sín mál fyrir kjósendum og þá kemur í ljós hvort að málflutningur þeirra stenst álagið og þá hvort að hann sé trúverðugur. Svo eiga frambjóðendur margir hverjir eftir að koma fram og kynna sig og sín málefni.
Þannig að það eru spennandi tímar framundan fyrir einstaklinga sem lifa og hrærast í heimi stjórnmálana.
Lifið heil!
Íslandshreyfingin mælist með með 5,2% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2007 | 01:36
Velheppnuð opnun!
Kosningarmiðstöðin á Ísafirði var formlega opnuð í dag kl. 18:00. Kosningarmiðstöðin er til húsa að Silfurgötu 5 (gamla Straumshúsinu).
Það var Birna Lárusdóttir sem bauð fólk velkomið og Einar Kristinn Guðfinnsson tók síðan við og ávarpaði samkomuna. Eftir að Einar hafði haldið góða ræðu tók Helga Margrét við og söng nokkur lög við undirleik Birgis Sigurjónssonar.
Einar Oddur ávarpaði síðan samkomuna og síðast en ekki síst fór Elfar Logi með gamanmál og lét viðstadda leika í kröfugöngu við mikinn fögnuð.
Það voru um 100 manns sem lögðu leið sína á opnunina í dag og góður rómur var gerður að húsakynnum miðstöðvarinnar.
Miðstöðin verður opinn fyrst til að byrja með frá 16:00 - 19:00 alla virka daga en lengur um helgar. Opnunartíminn mun síðan lengjast eftir páska.
Endilega kíkið við og kynnið ykkur málefni Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2007 | 21:31
Opnun kosningarmiðstöðvar Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði
Á morgun, föstudaginn 30.mars, mun kosningarmiðstöð sjálfstæðisflokksins verða opnuð formlega á Ísafirði.
Kosningarmiðstöðin er til húsa að Silfurgötu 5 (gamla Straumshúsinu) og mun fjörið hefjast kl. 18:00
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og fleiri frambjóðendur verða á svæðinu.Elfar Logi Hannesson mun flytja gamanmál og Helga Margrét Marzellíusardóttir mun syngja nokkur lög.
Það verða veitingar í boði stuðningsmanna.
Endilega mætið og kynnið ykkur stefnu Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2007 | 22:54
Skoðunarkönnun Stöðvar 2
Í kvöld var birt niðurstaða skoðanakönnunar stöðvar 2. Var hún birt í sérstökum kosningarþætti sem stöð 2 var að byrja á í kvöld. Ætlunin hjá þeim er að hafa svona þátt í öllum kjördæmum á miðvikudögum, eftir fréttir, fram að kosningum.
Þessi könnun kom álíka út eins og kannanir hafa verið að sýna undanfarið.
Sjálfstæðisflokkurinn: 28,4% - fékk 29,6% í kosningunum 2003
VG: 23% - fékk 10,6% í kosningunum 2003
Samfylkingin: 20,6% - fékk 23,2% í kosningunum 2003
Framsóknarflokkurinn: 14,3% - fékk 21,7% í kosningunum 2003
Frjálslyndir: 9,7% - fékk 14,2% í kosningunum 2003
Íslandshreyfingin: 2,9%
Það má ljóst vera að VG er að bæta við sig fylgi í þessu kjördæmi og það er forvitnilegt að sjá að Íslandshreyfingin mælist í þessari könnun þrátt fyrir að hafa ekki kynnt neinn framboðslista og hvað þá áherslur.
VG er farin af stað í svipaða kosningarbaráttu og 2003 með því að leggja áherslur á annað en þau málefni sem þeir hyggjast vinna að eftir kosningar. Barmmerki sem stela frösum úr auglýsingum sem hafa verið að fá miður vinsæla athygli víðsvegar um land. Jæja, sumir læra aldrei neitt!!
Sjálfstæðismenn eru með fylgi rétt við kjörfylgi og leiða má að því lýkur að 3 maðurinn (uppbótarþingmaður) fari til hans, miðað við þessar niðurstöður. Frjálslyndir ná inn Guðjóni Arnari en alþýðubandalagsframsóknarfrjálslyndi frambjóðandinn nær ekki inn miðað við þessar tölur. Samfylkingin er að dala eins og hefur komið fram áður í öðrum könnunum og virðast kjósendur vinstri flokkana hafa meiri trú á forystu VG heldur en forystu Samfylkingar.
Ég sá ekki þáttinn á stöð 2 í kvöld um Norðvesturland. Var að koma kosningarmiðstöðinni hér á Ísafirði í gagnið. Það sem maður les af blogginu er að Jón Bjarnason hafi staðið sig illa, ekki getað svarað spurningum fréttamanna og hafi ekki haft neitt nýtt fram að færa. Efsti maður Samfylkingar gerði víst engar gloríur, fór með rulluna sína. Sturla svaraði víst vel fyrir sig og einnig Magnús. Guðjón Arnar talaði um innflytjendamál og má víst vera að þeir freistast til að ná fylginu aftur upp fyrir léttvínsmörk með því að leggja ofuráherslu á það mál.
Þannig að fróðlegur þáttur fyrir þá sem sáu.
Það verður gaman að lesa bloggfærslur næstu daga um þennan þátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2007 | 16:56
Ferðasjóður íþróttafélagana stofnaður
Í morgun samþykkti ríkisstjórnin að setja á laggirnar ferðasjóð undir stjórn ÍSÍ og gera um það mál þriggja ára samning með 180 milljón króna framlagi. Framlagið verður þannig að á árinu 2007 koma 30 milljónir, 60 milljónir árið 2008 og 90 milljónir árið 2009.
Þetta eru frábærar fréttir fyrir HSV. Þetta hefur verið baráttumál okkar í nokkur ár og nú er það komið í höfn.
Stjórn ÍSÍ á eftir að semja reglur um greiðslur úr þessum sjóð og vona ég að hún taki ekki of langan tíma í verkið. Reyndar var skipuð nefnd um málið á síðasta aðalfundi ÍSÍ sem í situr fulltrúi HSV. Það hlýtur að vera þá verk þessarar nefndar að útbúa reglurnar.
Þetta eru vatnaskil í íslensku íþróttalífi að mínu mati. Með þessu er verið að hjálpa, ekki bara íþróttafélögum á landinu við kostnað við ferðalög, heldur einnig fjölskyldum sem hafa mátt reiða fram mikla fjármuni í ferðalög barna sinna.
Til hamingju við öll með að þetta baráttumál okkar er í höfn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2007 | 12:33
Vestmannaeyjabær lýsir yfir stuðningi við Vestfirðinga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2007 | 12:29
Strandabyggð hafnar tillögum um Menningarráð Vestfjarða
Sveitarstjórn Strandabyggðar hafnaði í síðastliðinni viku framlögðum tillögum um menningarráð Vestfjarða. Þeir höfnuðu þeirri grein tillagnana sem getur um fjölda fulltrúa í menningarráðinu.
Fulltrúarnir eru í dag 9 og voru þessi fulltrúar kosnir á þingi Fjórðungssambandsins fyrir tæplega ári síðan án mótatkvæða.
Ég er í raun sammála sveitarstjórn Strandabyggðar enda lagði ég fram á sínum tíma fram tillögu í ráðinu að fulltrúar í því yrðu 7 talsins. Sú tillaga var rætt í ráðinu en það náðist ekki samkomulag um hana. Samkomulag náðist um að halda fjöldanum óbreyttum fyrstu starfsár ráðsins og svo yrði það aðalfundur ráðsins sem myndi þá gera breytingar á menningarráðinu ef slíkt þyrfti. Það er sú tillaga sem menningaráðið sendi áleiðis til allra bæjar - og sveitarstjórna á Vestfjörðum.
Það er reyndar óskiljanlegt að sveitarstjórn Strandabyggðar skyldi hafa hafnað þessum tillögum frá menningarráðinu. Ef sveitarstjórnin hefði eitthvað við hann að athuga þá er það mín skoðun að þeir hefðu átt að fresta málinu og leita sér frekari upplýsinga um það sem var óskýrt í þeirra huga varðandi hann hjá sínum fulltrúa í ráðinu eða hjá formanni þess.
Það er von mín að þetta hafi ekki áhrif á það ferli sem nú er í gangi - að ná samningum við Menntamála - og Samgöngumálaráðuneyti um aukin fjárframlög til menningarmála á Vestfjörðum. Slíkt framlag myndi hafa mikla þýðingu fyrir menningarlífið í heild sinni á Vestfjörðum.
Ég hvet sveitarstjórn Strandabyggðar til að endurskoða ákvörðun sína, leita sér upplýsinga um tilurð hans hjá sínum fulltrúa og taka höndum saman með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum í því að efla hér menningarlíf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2007 | 10:25
Viljayfirlýsing Sambands ísl. sveitarfélaga og Ríkisstjórnar Íslands
Fimmtudaginn 22.mars var skrifað undir viljayfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ríkisstjórnar Íslands.
Viljayfirlýsing
Ríkisstjórn Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga lýsa yfir eftirfarandi :
1. Aðilar munu vinna saman að mótun tillagna um fjármálareglur fyrir sveitarfélögin og bætta
upplýsingaöflun sem tryggt geti að fjármál sveitarfélaganna vinni með ríkisfjármálunum að því er
varðar almenna hagstjórn. Í þessu sambandi verði sérstaklega hugað að markmiðssetningu
varðandi þak á vöxt útgjalda sveitarfélaga, þak á hlutfall skulda þeirra og tekjuafkomu þeirra yfir
hagsveifluna.
2. Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna, að því gefnu að afkoma ríkissjóðs leyfi, til þess að skoða
með jákvæðum hætti möguleika á að ríkið vinni með sveitarfélögum, sem tekin eru að framfylgja
fjármálareglum er þau hafa sett sér á grundvelli tillagna samkvæmt 1. tl. hér að framan, við að
lækka skuldastöðu þeirra. Samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu
þessa.
3. Aðilar munu vinna markvisst að auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga á sviði kjaramála til
þess að koma megi í veg fyrir misræmi í kjarasamningsniðurstöðum, hvort heldur hjá ríkinu
annars vegar og sveitarfélögunum hins vegar eða innbyrðis hjá sveitarfélögunum.
4. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að tímabundið aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á
árunum 2007 og 2008 til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga hækki úr 700 milljónum króna í 1400
milljónir króna hvort ár. Aðilar munu í sameiningu meta þörf fyrir aukaframlög í jöfnunarsjóð að
þessu tímabili loknu.
5. Aðilar munu sameiginlega leggja mat á framkvæmd samkomulags um framlög úr
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sameiningar sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson kynnti þessa yfirlýsingu fyrir þingfulltrúm á landsþingi sambandsins daginn eftir undirskriftina. Þar sagði hann að um almenna yfirfærslu á fjármunum væri verið að ræða frá ríki til sveitarfélaga í tengslum við fjármálareglna og svo hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum.
Helmingshækkun á framlagi í jöfnunarsjóð sveitarfélaga hefur mikla þýðingu fyrir okkar sveitarfélag. Í dag erum við að fá rúmar 200 milljónir úr jöfnunarsjóðnum. Þegar tekið verður til að dreifa fjármununum til sveitarfélagana þá er það von mín að horft verði til þeirra sveitarfélaga sem eru hvað dreifðust, eins og Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð. Einnig verður að horfa til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og svo verður einnig að horfa til Vestmannaeyja.
Svo verður fróðlegt að sjá hvernig þessar fjármálareglur verða útfærðar og hvað það muni skila sveitarfélögum. Tekjur sveitarfélaga af fjármagnstekjuskattinum eru engar í dag þannig að allt sem kemur þaðan frá ríkinu er til góðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar