Færsluflokkur: Bloggar
25.3.2007 | 09:42
XXI. Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga
Föstudaginn 23.mars var haldið landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga í Reykjavík. Ég var fulltrúi Ísafjarðarbæjar á fundinum ásamt þeim Örnu Láru Jónsdóttur og Svanlaugu Guðnadóttur.
Landsþingið var gott - mjög fróðleg erindi voru flutt þar um morguninn. Aðalþema þingsins var tilfærsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga.
Starfsmaður Finnska innanríkisráðuneytinu flutti erindi á þingingu er fjallaði um byggðaþróun og byggðamál í Finnlandi. Karl Björnsson, starfsmaður sambandsins, fjallaði um reynslu í tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Einnig var fjallað um samstarfsverkefni á Norðurlandi um starfsendurhæfingu. Mér fannst það erindi svakalega fróðlegt, spennandi væri að hugsa um þetta verkefni hér á Vestfjörðum, árangur þess er mjög góður á Norðurlandi. Einnig var fjallað um hvernig tilfærsla á verkefnum ætti að eiga sér stað.
Að loknum þessum erindum voru fyrirspurnir og umræður um þessi mál. Að því loknu voru samþykktar eftirfarandi ályktanir.
Samþykkt var eftirfarandi ályktun um tilfærslu verkefna:
XXI. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkir
að heildstæðum flutningi verkefna á sviði velferðar-, félags og
menntamála frá ríki til sveitarfélaga verði hrundið af stað
tafarlaust. Undirbúningur flutnings á þjónustu við aldraða,
fatlaða og rekstur framhaldsskóla og heilsugæslu þolir enga
bið. Efling sveitarstjórnarstigsins og leiðrétting tekjustofna er
forsenda heildstæðrar og markvissrar nærþjónustu - brýnustu
mál byggða allt í kringum landið og jafnframt hornsteinn
farsællar borgarstefnu.
Einnig var samþykkt ályktun um tilfærslu framhaldsskólanna til sveitarfélagana, hún er eftirfarandi:
XXI. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga telur að
flutningur reksturs framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga hafi
margvíslega kosti í för með sér og má í því sambandi
sérstaklega nefna sveigjanleg skil skólastiga. Landsþingið
hvetur menntamálaráðherra til þess að taka jákvætt í
hugmyndir sveitarfélaga um að taka yfir rekstur
framhaldsskóla í tilraunaskini og hefja sem fyrst undirbúning
þess verkefnis í samvinnu við sveitarfélögin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2007 | 18:53
HSV tryggir alla iðkendur
Í morgunblaðinu í dag er frétt á bls. 2 um hana Örnu okkar.
Fréttir er eftirfarandi:
ARNA Sigríður Albertsdóttir, sem slasaðist alvarlega á skíðum í Noregi fyrir síðustu áramót, fékk í gær bætur frá tryggingafélaginu Íslandstryggingu.
Aðspurð sagðist Arna Sigríður vera ánægð með að fá bæturnar og þá ákvörðun Héraðssambandsins að tryggja alla félagsmenn íþróttafélaganna. "Endurhæfingin gengur ágætlega, ekkert miklar framfarir en gengur ágætlega," sagði Arna Sigríður sem sagðist hafa haldið að allir íþróttamenn væru sjálfkrafa tryggðir.
Það var árið 2004 sem stjórn HSV tók þá ákvörðun, eftir samráð við formenn aðildarfélaga þess, um að tryggja alla iðkendur HSV. Það er von mín að þessi ákvörðun okkar muni koma Örnu og hennar fjölskyldunni vel í framtíðinni.
Fylgist endilega með heimasíðunni hennar Örnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2007 | 17:00
Ekkert nýtt!
Beið spenntur í dag eftir fréttum að blaðamannafundinum sem Íslandshreyfingin boðaði til.
Spenntur að sjá hvaða málefni þau ætluðu að leggja áherslu á, spenntur að sjá hvaða fólk væri stillt upp á lista, en nei ekkert kom fram á þessum fundi sem ekki hefur komið fram áður.
Sem segir aðeins eitt - þessi listi hefur ekkert tilbúið, ekkert klárt sem það getur sýnd landsmönnum, enga fastmótaða stefnu í neinum málaflokk og ekkert fólk sem ekki hefur áður lýst yfir stuðningi við þetta framboð.
Þannig að Ekkert nýtt!
Þessi blaðamannafundur hlýtur að hafa verið vonbrigði fyrir þá sem að honum stóðu - í raun ekkert sagt nema jú það verður annar fundur síðar, ekki vitað hvenær þar sem áherslur verða kynntar og fleira.
Ómar formaður og Margrét varaformaður Íslandshreyfingarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2007 | 12:41
Nýtt framboð - Íslandshreyfingin!
Þá er komið að því - eitthvað sem margir hafa verið að bíða eftir - nýtt framboð er að líta dagsins ljós í dag. Það er stuðmannaframboðið með þau Ómari, Margréti Sverris og Jakob Frímanni í broddi fylkingar.
Þetta framboð mun halda blaðamannafund í dag til að kynna áherslur sínar og þá um leið vonandi hverjir munu leiða lista þeirra. Það kemur fram að þau hyggjast bjóða fram í hverju kjördæmi (annað ekki hægt til að freista þess að fá uppbótarþingmann) og því verður spennandi að sjá hverjir munu verða í framboði fyrir þennan flokk.
Stefnumálin eru líka eitthvað sem ég bíð eftir að sjá - umhverfismálin verða örugglega ofarlega - nánast öruggt í fyrsta til tíunda sæti, spurning um stóriðjustoppið og jú vonandi eitthvað um byggðamálin. Þetta kemur samt allt í ljós í dag.
Þessir einstaklingar hafa vonast til þess að taka fylgi af sjálfstæðisflokknum en það er mín skoðun að slíkt gerist ekki. Frekar held ég að fylgi þeirra muni koma af vinstri vængnum og þá af vinstri grænum. Vinstri grænir hafa verið að marka sér sérstöðu með umhverfis - og jafnréttismálin í fremstu röð og því eru miklar líkur á að fylgi þeirra muni dala við þessar fréttir.
Þetta verður vonandi málefnaleg kosningarbarátta sem við eigum í væntum - samt eru vinstri menn byrjaðir að segja gamla frasa eins og "tími til breytinga" "nýtt fólk í ríkisstjórn" "okkar tími er komin" en mér finnst nú ekki mikið vera rætt um þau málefni sem flokkarnir leggja áherslu á (er þar minn flokkur engin undantekning). Það er nú nógur tími enn til kosninga - vonandi breytist þetta eitthvað nú þegar kosningarbaráttan er að hefjast af fullri alvöru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 15:25
Góður árangur Vestra á ÍM 50
Íslandsmeistaramótið í 50m laug var haldið um sl. helgi í Laugardalslauginni. Þar kepptu sundmenn úr Vestra og stóðu sig mjög vel.
Besta árangri Vestramanna náði Páll Janus Þórðarson í flugsundinu, bæði í 50m og 100m flugsundi. Við lestur frásagnar Benedikts, þjálfara Vestra, má lesa að ennþá missir Páll sundið þegar hann er stressaður. Þetta gerðist einnig þegar hann Páll syndi þegar ég þjálfaði hann hér um árið. Svona er þetta - vonandi lagast þetta hjá honum - tímarnir voru að minnsta kosti mjög góðir hjá honum á þessu móti í þessum sundum.
Anna María Stefánsdóttir syndi sig inn í C- landsliðshóp SSÍ. Það er mjög góður árangur hjá þessari frábæru sundstelpu. Það hefur verið ljóst lengi að Anna María myndi ná langt í sundi. Hún syndir mjög fallegt og sterkt sund, hefur skapið og viljan í þetta. Til hamingju með þennan árangur Anna - þetta er í raun fyrsta skrefið í því að ná mjög langt í þessari íþrótt.
Það voru einnig aðrir "Vestra" sundmenn að gera það gott á þessu móti. Hjalti Rúnar Oddsson sundmaður, sem nú syndir fyrir ÍRB (Keflavík og nágrenni) varð Íslandsmeistari í 50m flugsundi og stóð sig einnig mjög vel í 100m flugsundinu og í 50 og 100m skriðsundi. Góður árangur hjá Hjalta sem er að koma sterkur inn eftir að hafa átt við veikindi að stríða um skeið.
Bragi Þorsteinsson, nú sundmaður í SH (Hafnarfirði) stóð sig líka vel á mótinu. Hann varð í þriðja sæti í 50m flugsundi, stóð sig svo vel í sínum aðalgreinum, 50 og 100m skriðsundi. Bragi er svakalega góður skriðsundsmaður og flugsundsmaður. Ég reyndi á sínum tíma að gera hann að fjórsunds og bringusundmanni því hann átti mjög gott með öll sund. Bragi hefur síðan einbeitt sér að hröðu sundunum og er að ná góðum árangri þar.
Hannibal Hafberg, nú sundmaður hjá Óðni var einnig að standa sig vel á mótinu. Hannibal er góður bringusundsmaður og hefur sífellt verið að bæta sinn tíma í því sundi. Hannibal hefur alltaf verið góður sundmaður, frábær keppnismaður sem hefur alltaf lagt sig mikið fram um að ná langt.
Allir þessir sundmenn eiga eftir að ná mjög langt ef áhugi verður til staðar hjá þeim.
Ný sundlaug - takk fyrir!
Það sem okkur sárvantar hér er sundlaug sem getur boðið okkar sundfólki upp á æfingaraðstöðu sem fullnægir þeirra þörfum. Sú sundlaug sem Vestri æfir í í dag er bara ekki að gera sig - alls ekki og hefur ekki gert í mörg ár.
Ég hef alltaf viljað fá hér nýja laug - sem sundmaður, sem sundþjálfari og nú sem bæjarfulltrúi. Það er samt ekki nóg að vilja - það þarf einnig peninga til að hægt sé að framkvæma - peninga sem, því miður, er ekki mikið af þessa stundina.
Samt held ég áfram með málið - hér á að byggja nýja sundlaug með líkamsræktaraðstöðu við fyrsta mögulega tækifæri- takk fyrir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 14:41
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð í heimsókn
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð mun heimsækja Vestfirði um komandi helgi, 23. - 26.mars.
Kórinn mun halda fjóra tónleika sem verða á eftirfarandi stöðum:
Félagsheimilið í Bolungarvík 23.mars, kl.20.30
Ísafjarðarkirkja 24.mars, kl.17
Flateyrarkirkja 25.mars, kl.16
Þingeyrarkirkja 25.mars, kl. 20.30
Á efnisskrá kórsins er bæði íslensk og erlend tónlist, þjóðlög og tónverk m.a. eftir J.S.Bach, Carl Orff, Atla Heimi Sveinsson, Hjálmar H.Ragnarsson, Pál Ísólfsson og Þorkel Sigurbjörnsson. Kórfélagar leika á hljóðfæri í nokkrum verkanna t.d. í argentísku messunni Misa Criolla eftir Ariel Ramirez.
Stjórnandi kórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 11:13
Ráðstefna um þátttöku og móttöku innflytjenda í dreifbýli
Það verður haldinn ráðstefna um þátttöku og móttöku innflytjenda í dreifbýli í Hömrum á Ísafirði dagana 26. - 28. mars nk.
Það má alveg segja að málefni innflytjenda hafa verið mikið i umræðunni undanfarið.
Á ráðstefnunni munu helstu fræðimenn í málefnum innflytjenda og byggðaþróunar flytja erindi þar sem ýmsum flötum á þessum málum verður velt upp.
Það er orðið löngu tímabært að halda svona ráðstefnu, að mínu mati, og því fagna ég þessu framtaki fjölmenningarseturs og samstarfsaðila. Ráðstefnan er samstarfsverkefni Fjölmenningarseturs og Háskólaseturs Vestfjarða. Fékk hún myndarlegan styrk frá Evrópusambandinu í tengslum við vitundarvakningu í samfélögum.
Í tengslum við þessa ráðstefnu verður haldinn opinn borgarafundur um málefni innflytjenda.
Ég hvet alla til að mæta, bæði á ráðstefnuna og borgarafundinn, fræðast um þessi mál frá helstu fræðimönnum á þessu sviði í heiminum.
Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 10:08
Tilboð í Tröllatunguveg opnuð
Þá er komið í ljós hver mun vinna að gerð Tröllatunguvegar (Arnkötludalsvegar).
Opnun tilboða var í gær og lægsta tilboðið var frá Ingileifi Jónssyni ehf. eða tæplega 662 milljónir króna, sem er 76,5% af áætluðum verktakakostnaði, sem er 865,6 milljónir króna.
Áætluð verklok, samkvæmt útboði, er 1.september 2009. Mun verktaki fá 20 milljónir aukalega greidd ef hann kemur bundnu slitlagi á veginn fyrir 1.sept. 2008.
Þarna er um að ræða miklar vegaframkvæmdir sem munu verða til þess að leiðinn Ísafjörður - Reykjavík styttist um 42 km.
Það ber að fagna því að þetta verk er nú þegar komið í vinnslu. Ljóst er að vegurinn mun verða að fullu kláraður fyrir 1. sept. 2009 eða á svipuðum tíma og framkvæmdirnar í djúpinu verða að fullu kláraðar.
Eftir að þetta klárast erum við að tala um að fara á bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur.
Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á Djúpvegi á undanförnum árum sem hafa skilað sér í bættum samgöngum við þetta svæði. Það hefur samt komið full seint að margra mati en sér nú fyrir endan á þessu.
Árið 1997 settu sveitarstjórnarmenn fram sínar áherslur í vegaframkvæmdum fyrir svæðið. Þessi áætlun tók breytingum árið 2004 að litlu leyti. Eftir þessum áherslum hefur verið unnið allt síðan og nýsamþykkt samgönguáætlun mun leiða til þess að allar áherslurnar verða komnar í framkvæmd.
Ljóst er að á næstu árum munum við vestfirðingar sjá miklar breytingar í samgöngum á svæðinu - það hafa komið tímabil sem frekar hægt hefur gengið en nú liggur fyrir að eftir okkar áherslum er unnið og er það vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 09:52
Aðalfundur Höfrungs
Aðalfundur Höfrungs var haldinn í gær á Þingeyri í húsnæði björgunarfélagsins.
Þessi fundur var um margt sérstakur því þetta var aðalfundur fyrir árin 2004 - 2006 - það hefur s.s. ekki verið haldinn aðalfundur í þrjú ár.
Sigmundur Þórðarson lagði fram skýrslur stjórnar og reikninga fyrir þessi ár.
Það hefur verið unnið mikið starf hjá Höfrungi á þessum tíma - miklar breytingar hafa átt sér stað á aðstöðu til íþróttaiðkunnar á þessum árum. Gervigrasvöllur hefur risið, knattspyrnusvæðið var endurbætt og það hefur verið settur upp sandblaksvöllur á svæðinu. Það er síðan verið að huga að því að setja upp klifurvegg í íþróttahúsinu á næstunni. Höfrungur fékk styrk úr íþróttasjóði til að setja vegginn upp og einnig hafa þeir leitað til Ísafjarðarbæjar og HSV um styrk til að klára uppsetningu.
Þetta var góður fundur - ýmislegt sem upp á vantaði í framsetningu reikningana fyrir þessi ár en ekkert sem ekki má laga.
Sigmundur var endurkosinn formaður og fékk með sér í stjórn mjög öflugt fólk, eins og ávallt. Ellert, skólastjóri, verður varaformaður og Eyrún Harpa, stjórnarmaður í UMFÍ, verður gjaldkeri félagsins.
Höfrungur er félag sem á sér langa sögu og merka. Öflug starfsemi er unnin á vegum þeirra á Þingeyri og nágrenni og margar góðar hugmyndir voru lagðar fram í gær sem koma til með að gera félagið að mjög sterkri einingu innan HSV í framtíðinni.
Ég vil þakka fráfarandi stjórn Höfrungs fyrir þeirra framlag til íþróttalífs í Ísafjarðarbæ og óska nýkjörinni stjórn alls hins besta í störfum framundan.
Takk fyrir góðan fund!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2007 | 22:13
Heimasíða Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar