Leita í fréttum mbl.is

Frístundarkort og frítt í strætó

frétt á bb.is í morgun er fjallaði um kröfu foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði að tekið yrði upp frístundarkort hjá Ísafjarðarbæ.  Einnig var foreldrafélagið að beina þeim tilmælum til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að gefa börnum frítt í strætó þegar þau eru að fara í sínar frístundir.

Fyrst varðandi strætó - það er frítt í strætó þegar börnin eru á leið í og úr skóla.  Fyrri rekstraraðili strætó innan Ísafjarðar gaf börnunum einnig frítt í strætó fyrir utan skólatíma því það svaraði varla kostnaði og fyrirhöfn að prenta miða.  Núverandi rekstraraðili strætó, innan Ísafjarðar, innheimtar gjald af börnunum fyrir utan skólatíma og það er alvarlega verið að skoða það að niðurfella það í komandi fjárhagsáætlunargerð bæjarins.  Kostnaður við þessar breytingar er einhver en hagræðing og hugsanlega auknir notkunarmöguleikar strætó og íþróttamannvirkja yrðu verulegir. 

Nýting nokkurra íþróttamannvirkja innan Ísafjarðarbæjar mætti vissulega vera betri.  Mannvirkin á Flateyri og á Suðureyri (á veturna) mættu vera betur nýtt að mínu mati.  Hvernig það ætti að vera gert er síðan önnur umræða sem þarf vissulega að eiga sér stað.

Varðandi Frístundarkortin - það eru til nokkrar leiðir að gera þetta.  Sú leið sem notuð er hér hjá Ísafjarðarbæ er að HSV fær borgað í beinhörðum fjármunum um 8 milljónir á hverju ári.  Af þeim fjármunum fara 3,5 míllj. í rekstur skrifstofu HSV, 2 millj. skiptast til þeirra félaga (18 ára og yngri) sem stunda íþrótt sína innan vébanda HSV.  2,4 millj. er nýtt fjármagn sem á að fara til ýmissa verkefna íþróttafélaga innan HSV samkvæmt nánari útlistun og reglum stjórnar HSV. 

Má segja að þetta sé sú leið sem bæjarstjórn og HSV voru sammála um að fara árið 2002 til að félög innan HSV hefðu vissa leið að fjármagni til reksturs sinna félaga.  Að öðrum kosti hefðu félög þurft að hækka æfingargjöld sín til að standa straum af auknum útgjöldum.

Reykjavíkurborg fór einnig, fram að tilkomu Frístundarkorta, þá leið sem Ísafjarðarbær fer í dag.  Það sem Reykjavíkurborg síðan gerði var að taka þá fjármuni sem runnu beint til íþróttafélaga og láta þá í staðinn renna til foreldra sem síðan ákvarða í hvaða starf þeir eigi að renna.

Reykjanesbær fer aðra leið en Ísafjarðarbær og Reykjavík.  Þeir hafa ákveðið að allar frístundir sem barnið stundar eftir skóla til fjögur skuli vera á forræði bæjarfélagsins.  Þeir hafa komið á fót Frístundarskóla sem er starfræktur fyrir börn yngri er 12 ára og er frá því að barnið hættir í skólanum á daginn og fram að fjögur (fimm í sumum tilfellum).  Þetta er nokkurskonar heilsdagsvistun en börnunum gefst kostur að velja frístund á þessum tíma.  Getur verið íþróttir, tónlist, myndlist osfrv.  Síðan sér bæjarfélagið um að borga fyrir barnið í 2-3 frístundir og semur við aðila um að hafa þær í gangi á umræddum tíma.  Þarna eru börn, yngri en 12 ára, búin í sínum frístundum klukkan fjögur á daginn og geta því átt samverustund með sínum foreldrum eftir það. 

Foreldrar losna við mikinn akstur á æfingar eftir fjögur og einnig kostnað sem fylgir æfingum.

Ég persónulega er hrifnari af þeirri leið sem Reykjanesbær fer.  Hef áhuga á því að koma hér upp Frístundarskóla fyrir börn yngri en 12 ára.  Þá væri hægt að hafa þjálfara í fullri vinnu sem nýtast gætu íþróttafélögunum ofl. eftir kl. 16.  Með þessari leið þá losna foreldrar við skutl á æfingar og einnig þarna gefst foreldrum tími í samveru með börnum sínum eftir að vinnudag þeirra lýkur, fyrir utan að þetta sparar kostnað heimilanna við frístundir barna sinna.

Nú er bara spurning - hvað finnst ykkur?  Hvaða leið finnst ykkur vera betri?


Fjórðungsþing Fjórðungssambands Vestfirðinga

Fjórðungsþing var haldið um helgina á Tálknafirði.

Dagskráin var spennandi en ég gat því miður ekki verið á þinginu en ég fylgdist með úr fjarska.

Ályktanir þingsins eru komnar á vefinn og má nálgast þær hér.

Það eru þarna nokkrar tillögur sem stjórn þarf að fara að vinna í strax nú eftir þingið. 

Má þar nefna fyrst tillögu um að stofna Háskóla Vestfjarða strax. 

Í - listinn hefur farið mikinn í dag í því að segja frá því að þeir hafi nú átt hugmyndina af því að þessi tillaga kom fram á þinginu en gleyma því að þetta hefur verið baráttumál nokkuð lengi og m.a. stendur um þetta í málefnasamningi D - B-lista Ísafjarðarbæjar "Tryggja þarf Háskólasetri Vestfjarða nægjanlegt fjármagn svo það hafi fjárhagslega burði til að þróast í öflugan og fullburða háskóla". 

Krafan um Háskóla kom einnig fram á þingmannafundi sl. fimmtudag þegar bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar áttu fund með þingmönnum kjördæmisins.  Þetta staðfestir Sturla Böðvarsson í viðtali í fréttum útvarps í morgun, hlusta má að viðtalið hér.  Þar kom fram einhver leiðinlegur misskilningur í einum þingmanni er hann sagði að ástæða þess að Háskóli væri ekki búið að stofna hér væri vegna óeiningar einstaklinga hér vestra.  Ekki kannast ég við að slík óeining hefði eða væri fyrir hendi hér.  Það hefur hinsvegar verið ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki viljað ljá máls á stofnun Háskóla hér.  Stefna ríkisstjórnarinnar hefur frekar verið sameining fremur en fjölgun þeirra.  Nú í sumar sagði Ingibjörg Sólrún að stefnan væri stofnun Háskólasetra víðsvegar um landið en ekki stofnun Háskóla. 

Nú er bara að vona að ríkisstjórn landsins sýni sama dug og ríkisstjórnin sýndi árið 1987 þegar hún stofnaði Háskóla á Akureyri.  Ekki var sá skóli stór í upphafi en hefur síðan vaxið og dafnað og er stórt byggðamál fyrir allt Norðurland.

Krafan er Háskóli á Vestfirði.

Annað mál sem er einnig stórt er sú ákvörðun þingsins að hvetja sveitarfélög til að vinna sí - og endurmenntunaráætlanir fyrir starfsmenn sína.  Þetta er mál sem ég hef talað um fyrir í nokkurn tíma.  Þessi mál eru því miður ekki í nægjanlega góðum farvegi hjá Ísafjarðarbæ.  Um er að ræða að stefnan verði mörkuð með Fræðslumiðstöð Vestfjarða og sveitarfélögin setji fjármuni í það að mennta starfsfólk sitt enn frekar og gera því kleift að rækta sig enn frekar í starfi.

Því verður nóg að gera í stjórn sambandsins á næstunni.


Sumarfrí bæjarstjórnar lokið

Á morgun, fimmtudaginn 6.sept., lýkur formlega sumarfrí bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.  Þá hefst fyrsti fundur eftir sumarfrí og má segja að dagskráin sé löng að venju.

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í fyrra var frekar langur fundur eða um 7 tímar.  Persónulega finnst mér slíkir fundir ekki skila miklu.  Það er búið að segja margsinnis sömu hlutina á slíkum fundi. 

Ég hef verið talsmaður þess að annað fundarform væri tekið upp á bæjarstjórnarfundum.  Sú leið sem Akureyringar fóru er leið sem mér gæti hugnast að yrði tekin upp hér.  Aðferðin er falin í því að oddvitar flokkana hittast með forseta bæjarstjórnar vel í tíma fyrir hver bæjarstjórnarfund og ákveðið er hvaða mál á að ræða á fundinum.  Þau mál sem ræða á gætu verið eitthvað úr fundargerð bæjarráðs eða eitthvað annað mál sem oddvitar kæmu sér saman um að ræða t.d. skipulagsmál, mál er brenna heitt á bæjarbúum hverju sinni eða til að taka á einhverju sem hefur komið upp osfrv.  Í dag er slíkt erfitt í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar nema að viðkomandi bæjarfulltrúi geti fundið einhverja liði í fundargerð bæjarráðs eða nefnda til að ræða þau undir.  Oft er slíkt ekki hægt og því oft erfitt að tala um mál sem brenna mikið á bæjarfulltrúum hverju sinni.

Mér þætti gaman að athuga hvernig aðferð þeirra á Akureyri myndi koma út hér.  Tel sjálfur að hún væri til að stytta fundina og einnig að gera þá markvissari og hægt yrði að ræða um mál sem koma upp, þegar þau koma upp en ekki vikum seinna eins og hefur gerst hér.

Sjá má bæjarmálasamþykkt Akureyrarbæjar hér.   Vek sérstaklega athygli á II.kafla, 11.gr., 2.töluliður.


Að lokinni þríþraut

Þátttakendur í þríþrautinniÞríþrautin var á laugardaginn, eins og ég sagði ykkur frá hér að neðan. 

Ég tók þátt og stóð mig bara ágætlega.  Ég syndi 700m á 11.16, hjólaði 17km á 35 mín og hljóp 7 km á 36 og heildartíminn minn var 1klst 22 mín og ég endaði í 4.sæti í mínum aldursflokki.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég keppi í þríþraut þannig að ég rann alveg blind í sjóinn með hvað þetta væri.  Sundið kom mér á óvart en ég stífnaði allur upp, var hóstandi allan tímann og þurfti að synda bringusund síðustu 200m til að ná stjórn á önduninni.

Hjólið var erfitt enda mikill vindur á móti okkur í byrjun leiðarinnar.  Ég fékk lánað hjól (racer) sem munar miklu í svona keppni.  Það var búið að segja mér að passa mig á hjólinu, það væri ekkert mál að sprengja sig út og stífna í lærinu.  Það gerðist ekki en ég var stífur í lærinu þegar ég byrjaði að hlaupa en það jafnaði sig fljótt.

Þetta var bara gaman, hefði mátt vera betra veður, en í heildina séð sé ég alls ekki eftir því að hafa prófað þetta og gaman verður að taka þátt á næsta ári og bæta tímann sinn.

Það má sjá myndir af mér í keppninni á myndasíðunni hér til vinstri.  Myndirnar tók Guðmundur Ágústsson, frændi minn.


Þríþraut VASA2000

Á morgun, laugardaginn 1.september, fer fram þríþrautarkeppni VASA2000 og Heilsubæjarins Bolungarvík.  Keppnin fer þannig fram að fyrst eru syndir 700m í sundlauginni Bolungarvík.  Á eftir því er hjólað 17km frá Bolungarvík að Landsbankaplaninu á Ísafirði.  Svo er hlaupið 7km inn í fjörð og til baka á Landsbankaplanið.

Ég hef aldrei tekið þátt í þessu móti þó að undanfarin ár hafi ég eitthvað verið tengdur þessu.  Í fyrra t.d. reyndi ég að þjálfa nokkra keppendur fyrir átökin í sundlauginni.  Það tókst svona la la því að a.m.k. einn sem æfði hjá mér var næstum drukknaður í lauginni í Bolungarvík í keppninni sjálfri.

Í ár hef ég tekið ákvörðun um að taka sjálfur þátt, er uppiskroppa með afsakanir fyrir því að taka ekki þátt og læt því slag standa.

Er alveg ágætur að synda, lélegur að hjóla en get bjargað mér á hlaupum.  Þetta verður bara gaman og aðalmálið að taka þátt í þessu og klára þetta.  Svo er alltaf gaman eftir á þegar þetta er búið.

Ég hvet alla ættingja, vini og kunningja að mæta nú á Landsbankaplanið og hvetja mannskapinn áfram. 

Bið líka þá sem kynnu að vera á ferðinni á morgun í bíl að sýna keppendunum tillitssemi og víkja nú fyrir þeim - tillitssemi kostar ekkert.

 


Málað í skjóli nætur!

 

vatnsveitan

Það var frétt um það í vikunni á bb.is að vatnsveituhúsið í hlíðinni fyrir ofan Urðarveg hafi verið málað í skjóli nætur.  Góð frétt um það þegar íbúi tekur sig til og málar húsið sem lengi hefur verið lýti á umhverfi sínu sökum viðhaldsleysis.

Ég hef reyndar komist að því að húsið var málað að kvöldlagi í júlí, þegar sólin skín allan sólarhringinn, þannig að ekki var þetta nú gert í skjóli nætur (smá útúrsnúningur).  Það tók rúman mánuð fyrir bæjaryfirvöld að komast að því að húsið hafi verið málað.  Ætli þeim hafi nú ekki verið bent á það að lokum.

Ég vil nota þetta tækifæri hér og þakka viðkomandi fyrir framtakið - takk fyrir að taka að þér verk sem umhverfissvið bæjarfélagsins átti með sanni að vera löngu búið að láta framkvæma.  Það hefur jú staðið til nokkuð lengi að mála þetta hús.  Alltaf hefur eitthvað annað verið tekið framfyrir það í forgangsröðinni og því hefur það staðið ómálað í nokkur ár. 

Það sem mér finnst reyndar fáránlegt í þessari frétt eru athugasemdir Jóhanns Birkis, sviðsstjóra á umhverfissviði, að benda á fleiri eignir í eigu bæjarins sem jú mætti snurfusa aðeins ef aðrir hefðu áhuga á að taka að sér að framkvæma það í "skjóli nætur".  Er það þannig að sviðsstjórinn ætlar að gefa út lista í byrjun hvers árs yfir eignir sem íbúar mega taka að sér og laga.  Láta birta þennan lista á vef bæjarins með nánari útlistingu á því hvað beri að gera og leyfa íbúum svo að skrá sig við ákveðnar eignir.  Kannski það sé leið til að ná niður kostnaði hjá bæjarfélaginu - "taktu að þér eign - sparaðu fyrir bæjarfélagið".

Tel að einfalt Takk hefði verið nóg hjá Jóhanni í þessu tilfelli og að biðja viðkomandi að gefa sig fram við bæjarskrifstofu þannig að hægt væri að borga honum til baka tilfallandi kostnað við verkið.  Það er ekki á stefnuskrá yfirvalda bæjarfélagsins að láta íbúa standa straum af beinum kostnaði við viðhald eigna bæjarfélagsins á annan hátt en með greiðslu útsvars. 

 


Spurningarkeppni á RÚV ehf - hvert er vitrasta sveitarfélagið?

Þann 14.september n.k. mun sjónvarpið byrja með nýjan sjónvarpsþátt, ber heitið Spurningarkeppni Sveitarfélagana.

Þetta verður spurningarkeppni á milli sveitarfélagana og mun Ísafjarðarbær keppa ásamt 23 öðrum sveitarfélögum um titilinn "vitrasta sveitarfélagið".

Það verða þau Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir sem verða spyrlar og stjórnendur keppninnar.

Bæjarráð fól menningarmálanefnd að velja í liðið og hefur nefndin nú valið einstaklinga sem eiga að keppa fyrir hönd bæjarins í sjónvarpssal.

Liðið er þannig skipað:

Ólína Þorvarðardóttir, fyrrum skólameistari 

Halldór Smárason, menntaskólanemi

Ragnhildur Sverrisdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu

Þannig er að við urðum, samkvæmt beiðni frá RÚV, að velja einn einstakling sem er "þjóðþekktur" einstaklingur sem á ættir sínar að rekja til Ísafjarðarbæjar.  Ragnhildur varð fyrir valinu og erum við heppin að hafa hana í þessu liði. 

Að mínu mati er þetta gríðarlega sterkt lið sem ég veit að á eftir að ná langt í þessari keppni.

Ekki veit ég með hvaða sniði hún verður - það verður víst dregið í næstu viku um hvaða sveitarfélög eiga að mætast í fyrstu umferð.  Ég held að þetta sé útsláttarkeppni þannig að það lið sem tapar sé úr leik.

Nú er bara að fylgjast með hvaða sveitarfélagi við mætum fyrst og fylgjast svo með það föstudagskveld sem okkar lið mun keppa og mala andstæðinginn. 

 


Fjölgun gesta á Byggðasafnið

Byggðasafnið og húsin í Neðstakaupstað draga sífellt fleiri gesti til sín.  Fjölgun gesta hefur aukist ár frá ári og eru um 8000 búnir að heimsækja safnið það sem af er þessu ári.

Þessi fjölgun segir okkur að það beri að flýta byggingu þeirri sem fyrirhugað er að rísa á svæðinu.  Sú bygging sem á að reisa þar hafa gárungarnir nefnd "Hjörleifshöfða" en hún mun bæta til muna aðstöðu safnsins og stækkar sýningaraðstöðu safnsins til mikilla muna.  Þar er fyrirhugað að verði góð sýningaraðstaða, móttaka gesta, fyrirlestrarsalur (sem hægt væri að nota til kennslu á veturna) og aðstaða fyrir safnverði.

Slík bygging þarf að rísa sem fyrst til að hægt sé að bjóða gestum upp á sýningu á fleiri munum í eigu safnsins.  Í dag á safnið umtalsvert af munum sem eru í geymslu og hafa aldrei verið sýndir almenningi.  Munirnir eru geymdir í geymslum hingað og þangað í bæjarfélaginu en með stærri sýningaraðstöðu væri hægt að vera með þessa muni til sýnis.  Allt varðandi þetta hús er tilbúið, teikningar, deiliskipulag er klárt nú þarf ríkið að sjá hag sinn í því að leggja til fjármuni sem þarf til að reisa slíka byggingu til að við getum átt þess kost að auka við gesti á safninu næstu árin.

"Hjörleifshöfði" þarf að rísa hið fyrsta!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband