Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Páskafríið

Ég hef ekki mikið verið að blogga undanfarna daga - hef notið þess að vera í fríi og safna kröftum undir komandi átök.

Páskarnir hafa farið í það að vera með fjölskyldunni og ég vona að flestir hafi gert það sama.

Margir hafa lagt leið sína hingað til Ísafjarðar þessa páskahelgi -  einhver sagði mér að margir hefðu komið hingað þrátt fyrir að hafa ekki haft gistingu.  Ég vona nú að allir hafi haft í einhver húsaskjól að leita í og liðið þar vel.

Næstu vikur fara í kosningar og aftur kosningar - ég mun blogga mjög reglulega og leyfa ykkur að fylgjast með minni sýn á kosningarbaráttuna.


Páskahátíð

Ég óska þér og þínum gleðilegra páska!


Óskemmtileg reynsla

Þegar mál eru til meðferðar í bæjarráði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gengur stundum ýmislegt á. 

Eins og gefur að skilja eru nokkrar hliðar á nánast öllum málum og sitt sýnist hverjum um þá afgreiðslu sem síðan bæjarráð/bæjarstjórn tekur. 

Það er ýmislegt sem gengur á, á meðan málin eru í vinnslu, margir hringja í bæjarfulltrúa og segja sína hlið á málinu, koma í heimsókn með gögn og útskýra sín mál og allir fram að þessu hafa verið mjög málefnalegir og kurteisir þegar þeir leggja sína skoðanir fram. 

Þetta hefur verið mér sem bæjarfulltrúa ómetanlegt við vinnu mína.  Þetta hefur gefið mér tækifæri til að heyra skoðanir þeirra sem að málinu koma áður en ég tek ákvörðun í málinu.  Ég tek síðan ákvörðun í málum út frá minni eigin sannfæringu þrátt fyrir að hafa fengið að heyra annað í gegnum tíðina.

Í gær varð ég og fjölskylda mín reyndar fyrir mjög óskemmtilegri reynslu. 

Það er mál til meðferðar í bæjarkerfinu sem ríkir óánægja með hjá aðilum tengdum því.  Ég var að koma af sjúkrahúsinu, var þar í heimsókn hjá veikum ættingja. Þegar aðili að þessu máli tók mig tali.  Sá einstaklingur var kurteis í fyrstu, útskýrði sína hlið málsins sem hefur margoft komið fram.  Ég sagði viðkomandi mína skoðun á málinu og þá byrjuðu upphrópanir og skammir sem enduðu með fúkyrðum og svívirðingum í minn garð.  Ég kippti mér ekki upp við þetta - þetta hefur komið fyrir og þvi miður alltaf jafn sorglegt þegar einstaklingar hafa ekkert annað fram að færa nema persónulegar árásir á einstaklinga sem eru að reyna að vinna sína vinnu að bestu sannfæringu.

Því miður tók ekkert  betra við!

Ég gekk áleiðis heim og náði þar í þrjú börn og ferðinni var heitið niður í bæ.  Þegar ég var kominn áleiðis niður í bæ kom sami einstaklingur, sem ég sagði frá hér að ofan, stökk út úr bíl sínum og fór að ausa yfir mig fúkyrðum, svívirðingum og blótsyrðum sem gerðu það að verkum að börnin sem ég var með urðu dauðskelkuð og vildu forða sér í burtu.  Það gerðum við og forðuðum okkur. 

Börnin urðu vör um sig eftir þetta en því miður þá gerðist þetta aftur - ég átti erindi á bæjarskrifstofurnar og þar kom umræddur einstaklingur og jós ennþá meiri og verri fúkyrðum að mér sem börnin urðu aftur vitni af.  Farið var með börnin í burtu á meðan ég reyndi að ræða við einstaklinginn og reyndi að láta hann átta sig á því að það eru tími og staður fyrir allt - þetta væri ekki tíminn og staðurinn til að láta svona.  Það gekk ekki eftir og viðkomandi jós ennþá fleiri svívirðingum í minn garð þegar ég gekk í burtu.

Ég hef fram að þessu aldrei upplifað annað eins sem bæjarfulltrúi í þessu bæjarfélagi.  Fólk hefur haft sterkar skoðanir á sínum málum, sem er vel og kann ég að meta slíkt.  Samt þegar fólk hefur ekkert fram að færa nema persónulegar árásir á mig og mína fjölskyldu þá er mér nóg boðið.  Ég tilkynnti umrætt tilfelli til lögreglu því mér er ekki sama hvað fólk gerir og segir þegar ég er með börn mín og fjölskyldu nærri.

Börnin urðu skelkuð og það tók talsverðan tíma í gær að róa þau niður og reyna að útskýra fyrir þeim hegðun einstaklingsins.  


Til hamingju með árangurinn SFÍ

Það er virkilega gaman að heyra hvað krakkarnir í SFÍ hafa staðið sig vel á Unglingalandsmótinu á skíðum sem var haldið um helgina.

Ég vil nota þetta tækifæri hér til að óska öllum keppendur og aðstandendum þeirra hjartanlega til hamingju með árangurinn og einnig til hamingju með að hafa gert mótið eins glæsilegt og raun ber vitni.

Til að lesa betur um árangur keppenda SFÍ á mótinu má lesa þessa frétt á http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=98835

Enn og aftur til hamingju!


100 ára afmæli UMFB

Í gær, sunnudag, var haldið upp á 100 ára afmæli Ungmennafélags Bolungarvíkur, það var stofnað 1.apríl 1907. 

Það var haldin mikil veisla í Víkurbæ þar sem fjölmenni mætti til að fagna þessum tímamótum.

Ég mætti fyrir hönd HSV og færði UMFB 100 þúsund krónur að gjöf til þess að byggja upp knattspyrnusvæði félagsins.  UMFB fékk einnig fleiri góðar gjafir og nánast allar voru til þess að byggja upp aðstöðu félagsins við knattspyrnusvæðið.  Það verður því hægt að gera marga góða hluti þar í vor og sumar til eflingar félagsins og samfélagsins í heild.

UMFB hefur á síðustu árum verið í mikilli samvinnu og samstarfi við félög innan HSV.  Þar má nefna golffélagið, sunddeildina, fótboltadeildina, körfuboltan.  Krakkar hafa verið að æfa saman frá Ísafjarðarbæ, Súðavík, og Bolungarvík.  Það hefur reynst ómetanlegt fyrir þessa krakka að fá að æfa og keppa saman.  Árangurinn hefur einnig verið góður og samstaðan hjá þeim mikil.

Mér fannst gaman að heyra smá úrdrátt úr sögu félagsins í gær.  Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar UMFÍ var stofnað á Þingvöllum í júni 1907 þá riðu Vestfirðingar á staðinn til að vera við undirritun stofnsamningsins.  Eftir um viku ferðalag komust þeir á staðinn og stigu af baki.  Ekki leið langur tími þangað til það fréttist til þeirra að áfengi var ekki veitt á staðnum og því stigu þeir á bak aftur og riðu beint heim á leið og skrifuðu ekki undir stofnsamninginn fyrr en nokkrum árum seinna.

Það má með sanni segja að tímarnir hafa breyst á þessum 100 árum.  UMFB hefur staðið sig vel í uppbyggingu íþrótta - og æskulýðsstarfsemi í Bolungarvík á þessum tíma og ber að þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt mikið starf á sig í sögu félagsins.

Til hamingju með afmælið UMFB!

 

 


Vígsla reiðhallar

Í gær, laugardaginn 31.mars, var vígsla reiðhallarinnar á Söndum í Dýrafirði.  Það er hestamannafélagið Stormur sem hefur haft veg og vanda að byggingunni. 

Vígslan var fjölmenn og virkilega gaman að sjá hversu margir voru mættir til að samfagna hestamönnum á þessum merkilega degi. 

Þetta er glæsileg reiðhöll, góður aðgangur er að henni (þó að allt hafi verið í drullu vegna mikillar rigninga í gær) og allur frágangur er til fyrirmyndar á allan hátt.  Það eru áhorfendabekkir með annarri langhliðinni á húsinu svo að aðstaða til sýninga og keppni er mjög góð.

Ég tók til máls fyrir hönd stjórnar Héraðssambandsins og færði Hestamannafélaginu Stormi að gjöf hnakk fyrir börn ásamt öllum fylgihlutum.  Hnakkurinn mun vonandi nýtast vel þegar kynna þarf þessa göfugu íþrótt fyrir börnum í framtíðinni.

Það voru tveir kórar sem tóku lagið við góðar undirtektir í húsinu, línudans var stíginn og svo var þessi líka flotta töltsýning.   Ræður voru fluttar af Einari Kristni, Magnúsi Stefánssyni, Rögnu Jóhannsdóttur og Halldóri bæjarstjóra. Þetta allt var síðan toppað með svakalegum veitingum - stríðstertum og heitu kakói.

Reiðhöllinn fékk nafnið Knapaskjól og hefur þegar verið stofnað rekstrarfélag um það.  Kostnaður við höllina nam rétt rúmum 30 milljónum króna og stærstu hlutur þess fjármagns kom frá Landbúnaðarráðuneyti og svo var einkaaðili sem lagði til umtalsverða fjármuni.  Ísafjarðarbær kom líka að fjármögnun byggingarinnar og svo eru margir einstaklingar og fyrirtæki sem hafa lagt mikla vinnu og fjármuni til að sjá þessa höll rísa af grunni.

Það er von mín að þessi reiðhöll muni gagnast í framtíðinni til þess að efla hestaíþróttina á starfssvæði HSV.  

Til hamingju hestamenn

p.s. Hver veit nema maður fái einhverntímann að fara á bak í höllinni 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband