Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hörkukarlar í nefnd um málið!

Þá hefur ríkisstjórnin skipað nefnd mjög góðra manna til að fara yfir stöðu mála og koma með raunhæfar tillögur til að  fyrir 11.apríl nk. 

Nefndin er skipuð eftir mikla vinnu sveitarstjórnarmanna af öllum Vestfjörðum sem hafa átt fundi í febrúar með ríkisstjórn og stjórnarandstöðu flokkunum.  Halldór bæjarstjóri greindi frá því fyrir stuttu að hann átti síðast fund með Geir Haarde í síðustu viku um þetta mál.

Það eru til fullt af raunhæfum lausnum sem hafa verið settar fram í gegnum tíðina, lausnir sem við Vestfirðingar höfum sett fram.  Þessar lausnir miða allar að því sama - halda byggð á þessu svæði.

Ég ber mikið traust til Halldórs og Aðalsteins í þessu máli.  Þeir eru fulltrúar okkar Vestfirðinga í þessari nefnd, einstaklingar sem hafa mikla þekkingu á svæðinu og þeim lausnum sem hafa verið settar fram í gegnum tíðina. Ég hef mikla trú á því að þeir eigi eftir að setja fram markvissar leiðir sem hægt væri að fara eftir - það sem þarf svo eru aðgerðir serm fylgja eftir þeim tillögum sem þessi nefnd leggur fram. 

Ég legg ofuráherslu á að þetta verði ekki enn ein skýrslan sem verður sett fram sem hafi lausnir sem síðan verður ekki fylgt eftir á neinn raunhæfan hátt.  Við þurfum ekki aðra skýrslu um málið - við þurfum aðgerðir takk fyrir! 


Mikið um að vera í íþróttalífi bæjarins

Það er mikið um að vera hjá íþróttafélögum innan HSV á næstunni.

KFÍ mun leika hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni við Stjörnuna núna á nk. laugardag.  Ég verð því miður ekki á svæðinu þar sem ég er á leiðinni í smá frí til Ítalíu á morgun, miðvikudag.  Ég óska mínum mönnum alls hins besta í leiknum, vona að íbúar Ísafjarðarbæjar fjölmenni á leikinn og láti heyra í sér á áhorfendapöllunum.  Það væri gaman að skapa stemmingu eins og hér áður í Klakanum.  ÁFRAM KFÍ!!!!

Helgina 22. - 25. mars er síðan Unglingameistaramót Íslands á skíðum í Tungudal.  Þetta er mót sem vera átti í Reykjavík en sökum snjóleysis þar var mótið fært hingað til Ísafjarðar.  Mótið verður sett formlega í Ísafjarðarkirkju fimmtudaginn 22. mars kl. 20:00. 

Ég hef í hyggju að mæta í brekkurnar og fylgjast með mótinu - vona að það sé í lagi að maður standi þar án skíða - ég er nefnilega þekktur fyrir allt annað en skíðafimi mína.  Ætla samt að láta mig hafa það og mæta til að hvetja mitt fólk - vona að fólk fjölmenni í brekkurnar og aðstoði mig við hvatningarhróp til okkar frábæra skíðafólks. 

Það er mikil ávinningur fyrir okkar samfélag þegar vel gengur hjá íþróttafélögum bæjarins.  Það skapar stemmingu og umtal út fyrir samfélag okkar - slíkt vekur eftirtekt og liðum finnst gaman að koma hingað, mót er eftirsóknarvert að halda hér og mæta á.

Það er von mín að íþróttafélög innan HSV hlutist til um það að fá hingað stór mót og einnig stóra fundi.  Slíkt er góð kynning fyrir okkur og það mikla og góða starf sem unnið er hér á svæðinu innan íþróttafélaga.


Góður árangur Harðarmanna í glímu

Það var virkilega gaman að horfa á glímu í íþróttahúsinu Torfnesi sl. laugardag. 

Þar stigu menn og konur glímu og tókust vel á. 

Það var bara gaman að fylgjast með þessu móti og Harðarmenn stóðu sig virkilega vel. 

Í bb.is í dag kemur fram hver úrslit okkar manna var á mótinu voru - þau voru eftirfarandi: 

+90 kg
1. Skarphéðinn Orri Björnsson, KR 3 v.
2. Stígur Berg Sophusson, Herði 2 v.
3. Brynjólfur Örn Rúnarsson, Herði 1 v.

Unglingaflokkur
1. Pétur Þórir Gunnarsson, HSÞ 7,5 v.
2. Stígur Berg Sophusson, Herði 6,5 v.
3. Daníel Þór Þorsteinsson, Herði 5,5 v.
4. Brynjólfur Örn Rúnarsson, Herði 5 v.

Til hamingju Harðarmenn með mótið - það var virkilega vel að því staðið og virkilega gaman að sjá hversu margir mættu til að fylgjast með glímunni.

Takk fyrir mig!


Ályktunin frá borgarafundinum í gær!

Opinn borgarafundur, haldinn í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 11. mars 2007, skorar á fulltrúa Vestfirðinga á alþingi og í sveitarstjórnum, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum.  Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi við marg- ítrekuð loforð og stefnumótun um uppbyggingu Ísafjarðar sem eins af þremur byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur að þessu svæði verði settar sanngjarnar leikreglur með ákvörðunum um nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu opinberra starfa og eðlilegt aðgengi að fjármagni.  Mikið vantar á að þetta landsvæði njóti jafnræðis á við aðra landshluta varðandi samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi.  Beinir fundurinn því til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi að mæta til kosningabaráttunnar nú í vor með haldbærar tillögur um framtíð byggðar á Vestfjörðum.   Við köllum eftir samstöðu þings og þjóðar gagnvart þeim vanda sem Vestfirðingar standa nú frammi fyrir.   

Borgarafundurinn "Lifi Vestfirðir"

Ég fór á borgarafundinn í Hömrum í gær sem hafði yfirskriftina "Lifi Vestfirðir" og fannst mikið til hans koma.

Þetta var fjölmennur fundur eins og við mátti búast, ruv.is sagði að um 200 manns hefðu mætt til að hlusta á framsögurnar og láta álit sitt í ljós með stöðu mála í atvinnumálum á Vestfjörðum.   

Það voru fluttar sjö framsögur sem mér fannst allar góðar.  Margt misjafnt kom fram í þeim eins og gefur að skilja. 

Steínþór Bragason kom mér á óvart því ég taldi að maður sem hefur hlotið tilnefningu til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands myndi nota allan tíma sinn til að fjalla aðarlega og eingöngu um nýsköpun á þessu svæði en reyndir varð önnur.  Hann setti fram forvitnilega hugmynd að stofnun nýs nýsköpunarsjóðs á þessu svæði sem áhugavert væri að skoða hvort væri framkvæmanlegt  Það tók í raun ekki langan tíma að fara yfir það.  Síðan fór hann að fjalla um vegamálin, samgöngurnar og varpaði upp korti af Vestfjörðum (hinu gleymda svæði í samgönguáætluninni eins og hann sagði) sem hann hefur birt nokkrum sinnum að undanförnu.  Það kom mér á óvart að Steinþór fjallaði um þetta á þessum vettvangi- ég taldi að hann myndi fjalla um einhverja nýsköpun (eins og titill fyrirlesturs hans gaf í skyn) en ég varð svo fyrir vonbrigðum þegar hann gerði það ekki. 

Einar Hreinsson flutti fyrstu framsöguna og fór yfir það hvernig að byggðamálum hefur verið staðið síðan 1963 í stuttu máli sagt bara alls ekki nógu vel.  Það voru mjög góðar upplýsingar sem hann setti fram á skemmtilega hátt og fór yfir hvað ráðamenn hafa sagt í gegnum tíðina um þessi mál - þá aðallega Sturla Böðvarsson, samgöngumálaráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, þá iðnaðar - og viðskiptaráðherra.  Mikið var líka fagnað þegar hann lauk máli sínu.  Mér fannst Einar koma þessu vel frá sér og flott að sjá hvernig hann setti þetta upp - Einar var reiður í máli sínu og ég held að allir fundarmenn hafi skilið hann vel - það hefur of mikið verið sagt en ekki nægilega mikið gert í byggðamálum, sérstaklega á þessu svæði. 

Kolbrún Sverris, Anna Guðrún, Ólafur, Lína Tryggva og Þorleifur fluttu sínar framsögur vel. 

Kolbrún var jarðbundin að venju.  Raunsæ framsaga hjá henni sem gott var að hlusta á. 

Anna Guðrún flutti í raun það sama og grein hennar í morgunblaðinu á laugardaginn fjallaði um og gerði hún það vel. 

Ólafur kom með tillögu um að Vestfirðingar fengu til baka það sem þeir hafa misst af kvótanum síðan hann var settur á eða um 20.000 þorskígildistonn.  Las úr bók fyrrum forsætisráðherra sem sagði að kvótasetningin hefði verið röng á sínum tíma.  Ólafur vitnaði líka í Churchill þegar hann sagði eitt sinn "give us the tools and we will finish the job".  Góð framsaga hjá Ólafi þó ég telji að kvóti sé af hinu góða fyrir þetta samfélag þá er hann ekki allt. 

Þorleifur fór yfir möguleika okkar í rannsóknum á þessu svæði, sem eru miklir og hvatti ráðamenn þjóðarinnar til að standa vel að uppbyggingu fleiri rannsókna á þessu svæði.

Síðan var komið að fyrirspurnum úr sal.  Þá kom eins og maður bjóst alveg við - framboðsræðum wonnabe þingmanna og þingmanna elect.  Að sjálfsögðu var þetta góður vettvangur til að láta sjá sig og koma sér á framfæri á einum fjölmennasta fundi síðari tíma hér á Ísafirði.  Betri vettvang fá þessir wonnabe þingmenn ekki til að koma sér á framfæri og láta ljós sitt skína.  Einar Hreinsson sagði í enda fundarins og uppskar mikil fagnaðarlæti fundarmanna þegar hann sagði wonnabe þingmönnum að þetta hefði ekki verið rétti tíminn fyrir framboðsræður.  Góður Einar!

Það var lögð fram og samþykkt ályktun frá fundinum sem mér fannst góð.  Mikill baráttuhugur var í fundarmönnum sem mér fannst skila sér til þeirra þingmanna sem mættu.

Athygli vakti fjarvera stjórnarþingmanna á fundinum.  Það var engin stjórnarþingmaður mættur - ekki einn, ekki einu sinni frambjóðendur stjórnarflokkana að tveimur undanskildum heimamönnum þeim Birnu Lárusdóttur og Svanlaugu Guðnadóttur.  Þetta er skammarlegt að mínu mati og ég sé að margir eru að blogga um þetta á netinu.  Ég veit ekki hvar mínir menn voru en skilaboðin sem þeir sendu með fjarveru sinni voru að mati fundarmanna - "þeir hefðu ekki tíma til að sinna íbúum þessa svæðis" eins og Einar Hreinsson sagði í sínum lokaorðum.

Ég þakka skipuleggjendum fundarins fyrir þennan fund, það var vel að honum staðið.


Starfshópur um tölvumál Ísafjarðarbæjar

Í bæjarráði á fimmtudaginn var lagði Sigurður Pétursson fram ósk um að fá skýrslu um störf tölvunefndar Ísafjarðarbæjar.

Umrædd tölvunefnd heitir í raun starfshópur um tölvumál Ísafjarðarbæjar og ég veiti þessum starfshóp formennsku.

Það má segja að undarfari þess að þessi starfshópur var stofnaður var að starfsmenn Ísafjarðarbæjar kvörtuðu sáran yfir því hversu tölvukerfið væri seint og hversu illa það starfaði.  Mikill tími fór í að bíða eftir svari frá tölvubúnaðinum og af því hlaust vinnutap.  Einnig voru samskipti oft á tíðum stirð á milli þeirra aðila sem sinntu tölvumálum Ísafjarðarbæjar og þeir vísuðu hver á annan þegar kerfið lá niðri vegna bilana.

Núverandi starfshópurinn var skipaður árið 2005 og í honum sitja, ásamt mér, Jóhann Hinriksson, Þórir Sveinsson, Védís Geirsdóttir og Skarphéðinn skólastjóri. 

Í upphafi urðum við að gera okkur grein fyrir því hvernig tölvukerfið væri í raun og veru.  Nokkru áður hafði kerfisfræðingur farið yfir nokkurn hluta kerfisins og gaf hann þeim hluta mjög slæma einkunn.

Við létum gera ítarlegri skýrslu um tölvukerfið í heild sinni og kom þá í ljós að kerfið var í raun ónýtt. 

Í kjölfarið á þeirri skýrslu létum við EJS ehf. vinna fyrir okkur að framtíðarsýn í tölvumálum Ísafjarðarbæjar. 

Eftir þessa vinnu skilaði starfshópurinn áfangaskýrslu til bæjarstjórnar þar sem kom fram hvernig starfshópurinn sá fyrir sér uppbyggingu tölvukerfisins á næstu árum.  Út frá þeirri framtíðarsýn hefur verið unnið í bráðum tvö ár.

Í áfangaskýrslunni kom fram að starfshópurinn vildi byggja upp tölvukerfið, samræma það og gera það hraðara, samræma innkaup á tölvubúnaði, fjárfesta í heimasíðu, ráða kerfisfræðing til að þjónusta kerfið, setja upp "Minn Ísafjarðarbær" fyrir íbúa og búa til svæði fyrir bæjarfulltrúa.  Einnig var fjallað um að Ísafjarðarbær ætti að fjárfesta í IP-símkerfi og draumurinn væri að gera Ísafjarðarbæ að "Hotspot".

Allt þetta hefur í raun verið framkvæmt á síðasta ári og það sem af er liðið af þessu.  Við keyptum heimasíðu af EcWeb, keyptum mjög fullkomið tölvukerfi sem skilar miklum hraða og við þjónustum það algerlega sjálf, við réðum kerfisfræðing sem hefur samræmt innkaup, keyptum IP-símkerfi og með því getum við í raun gert Ísafjarðarbæ að "Hot spot" í framtíðinni. 

Við höfum ekki ennþá ráðist í það að gera svæði, eða svokallaðan "Minn Ísafjarðarbæ", þar sem smá hnökkrar komu upp við að láta forrit "tala saman".

Ég vil meina að það sem hefur verið fjárfest fyrir að undanförnu skili sér til baka á næstu árum.  Það kemur til baka í því að tímasparnaður verður hjá starfsfólki, hagstæðari innkaup verða á tölvubúnaði, ódýrt er að hringja á milli stofnana og einnig er þjónustan við íbúana orðin miklu betri en hún var.

Næstu skref, sem hafa verið rætt í starfshópnum, er að tölvuvæða Grunnskóla Ísafjarðarbæjar betur.  Hugmyndir hafa verið uppi að láta alla kennara hafa fartölvur til að vinna við í skólanum eða setja tölvur upp í aðstöðu kennara og í skólastofum.  Einnig ber að koma góðri tölvuaðstöðu í skólanum sem nemendum hafi aðgang að.  Þar verði tryggt að nemendur geti lært á fullkomnasta búnað sem völ er hverju sinni.

Það er mín skoðun að vel hafi verið unnið í starfshópnum.  Við höfum greind vandamálin, fundið lausnir við þeim og leyst þau. 

Ég tel að starfshópurinn muni ekki starfa nema fram á sumarið en þá mun hann skila inn lokaskýrslu þar sem tekið verður saman að hverju hefur verið unnið frá því að áfangaskýrslan var lögð fyrir og hvernig til hefur tekist.

Ég vona að minnihlutinn starfi saman með meirihlutanum að því að halda áfram að byggja upp tölvukerfi sem svarar kalli nútímans.


Skammarlegt!

Mér brá þegar ég las þessa frétt á ruv.is:

Lögreglumaður ölvaður á slysstað?

Lögreglumaður á Akureyri er grunaður um að hafa mætt ölvaður á vettvang banaslyss í Hörgárdal aðfaranótt sunnudags. Lögreglumaðurinn var ekki á vakt en var kallaður út vegna slyssins.

Samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins ók lögreglumaðurinn á slysstað. Aðrir lögreglumenn fundu áfengislykt af félaga sínum. Tekin voru öndunarsýni og var lögreglumaðurinn sendur í blóðprufu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra verður málið kannað nánar en það hefur verið sent ríkissaksóknara þar sem ákveðið verður hvort ákæra verði gefin út fyrir brot í starfi. Í kjölfarið ákveður embætti ríkislögreglustjóra hvort manninum verði vikið úr starfi tímabundið. Meint brot lögreglumannsins geta varðað lögreglulög, starfmannalög og almenn hegningarlög. (birt á vef ruv.is)

 

Umræddur lögreglumaður hefði átt, að mínu mati, að hafa vit á því að segja að hann væri ekki reiðubúin að mæta á slysstað. 

Svona getur áfengið skert dómgreind manna!


Sigurjón Þórðarson, þingmaður, byrjaður að blogga!

Sá mæti maður Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins fyrir norðvesturkjördæmi, er byrjaður að blogga á mbl blogginu.

Það er nú ekki ýkja mikið á síðunni hans þessa stundina en það er eins og hann hafi stofnað þetta blogg til þess eins að setja tölvupóst á milli framkvæmdarstjóra þingflokks frjálslyndra og starfsmanns samtaka iðnaðarins í birtingu á netinu.

Það er ekki annað hægt að sjá en að Sigurjón sé eitthvað ósáttur við að Frjálslyndir fá ekki tala á Iðnþingi og hefur því stofnað blogg til þess eins að blogga um frétt um þessa óánægju sína á mbl.is.  Birtir hann þar umrædda tölvupósta. 

Ætli Sigurjón hafi beðið starfsmann samtaka iðnaðarins um leyfi til að birta svör hennar opinberlega?

Er þetta eitthvað sem einstaklingar eiga von á þegar þeir senda póst til þingflokks frjálslynda flokksins, að hann verði birtur á netinu, hugsanlega án vitundar sendanda.

Samtök Iðnaðarins sendu frá sér fréttatilkynningu í gær vegna málsins.


Stuðmannaframboðið verður eflaust kallað Íslandsframboðið!

Nokkrir bloggarar, m.a. denni og Hanna Birna, eru að velta fyrir sér framboði Margrétar Sverrisdóttur, Ómars Ragnarssonar og Jakobs Frímanns sem gárungarnir voru nú farnir að kalla Stuðmannaframboðið.

Það hefur einhver fylgikona Margrétar skráð lénið Íslandslistinn.is á netinu og kemur fram í bloggi Tómas Ha hver það er og hvernig menn tengja það við Margréti. 

Það er ekkert smá nafn! 

Var ekkert annað laust?

Það verður gaman að sjá hvort þetta rætist allt saman hjá þeim. 

Ég hef ekki trú á því að þetta framboð taki fylgi frá Sjálfstæðisflokknum.  Það mun að öllum líkindum taka sitt fylgi frá VG en stóra spurningin er í raun sú hvort að umhverfisverndarsinnar séu ekki búnir að finna sig í VG og vilji ekki fara þaðan, á slíkt bendi stjórnmálafræðingur hjá morgunblaðinu á um daginn þegar nýjast könnunin var kynnt.

 


Össur aftur orðinn formaður Samfylkingarinnar?

Sólveig Pétursdóttir er eins og alþjóð veit Forseti Alþingis.  Hún lendi í frekar neyðarlegu atviki í morgun þegar hún var að stjórna þingfundi. 

Össur Skarphéðinsson hafði beðið um orðið.  Sólveig steig á fætur og sagði hátt og snjallt - Össur Skarphéðinsson Formaður Samfylkingarinnar hefur beðið um orðið. 

Þetta vakti mikla kátínu í þingsal og það var stoltur þingflokksformaður Samfylkingar sem steig í ræðustól.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband