Leita í fréttum mbl.is

Fín Brussel ferð

Kom heim frá Brussel í síðustu viku eftir fimm mjög fræðandi daga í evrópskri hámenningu.

Það voru 34 sveitarstjórnarmenn af öllu landinu sem fóru í þessa ferð og var virkilega gaman að kynnast þeim og hvað þeir eru að gera í sínum heimabyggðum.  Mér persónulega finnst alveg ótrúlega lítill samgangur og samvinna með sveitarfélögum á landinu og í viðræðum við þessa einstaklinga komst ég líka að því að öll erum við nánast að vinna að því sama.

Fyrsta daginn í Brussel fengum við kynningu á skrifstofu sambands íslenskra sveitarfélaga og einnig af samtökum evrópskra sveitarfélaga sem hefur höfuðstöðvar sínar í Brussel.  Var gaman að sjá og heyra hvað fulltrúi okkar er að fást við dags daglega og er vissulega af mörgu að taka.  Við fengum einnig góða og viðamikla kynningu á því hvað íslenska sendiráðið er að gera í Brussel.  Í sendiráðinu vinna um 26 einstaklingar í hagsmunagæslu fyrir íslenska þjóð.  Það er fulltrúi frá hverju ráðuneyti og svo starfsmenn þeim til aðstoðar.  Mikið álag hefur verið á alla þessa einstaklinga að undanförnu vegna stórra frumvarpa sem eru í vinnslu innan ESB og snerta okkur mjög mikið.

Annan, þriðja og fjórða daginn í Brussel fóru opnu dagarnir fram.  Mjög margir fyrirlestrar um margvísleg málefni voru í boði þessa daga.  Ég fór á 5 fyrirlestra sem snerust að langmestu leyti um hvernig hægt sé að ná fjármagni til byggða sem eiga undir högg að sækja.  Má segja að heildarniðurstaða þess er að við eigum varla roð í stórar evrópskar borgir og svæði í fyrrum sovétríkjunum.  Það er verið að setja mikla fjármuni til uppbyggingar þar og t.d. er verið að setja mikla fjármuni í markaðsetningu svæðana og niðurfellingu skatta á svæðunum til að heilla erlenda fjárfesta og stórfyrirtæki.  Það eru allir að berjast um sömu fyrirtækin og á sama markaðnum.

Það sem mér fannst gaman að sjá þarna úti er hversu hugmyndaríkir Finnarnir eru miðað við önnur lönd og svæði.  Þeir hafa verið að byggja um svæðin sín með aðrar hugsanir, önnur markmið og aðra sýn á framtíðina heldur en gengur og gerist.  Þeir hafa ekki verið að berjast um hylli stóru fyrirtækjana sem allir eru að berjast um heldur farið leiðir til að fá til sýn fyrirtæki sem margir myndu kalla áhættufyrirtæki.  Þessum fyrirtækjum er gefið svigrúm til athafna, sérstaklega í norður Finnlandi,  og hafa mörg þeirra dafnað vel og eru að ná mikilli dreifingu á vörum sínum og þjónustu um víða veröld.

Tel að það sé margt sem við Vestfirðingar ættum að geta lært af Finnum í þessum efnum.  Samt verður að segja að þeir hafa umtalsvert meira fjármagn til að spila úr en við höfum t.d. í gegnum Vaxtasamning Vestfjarða (70 millj. á þremur árum).  Ef eitthvað á að koma úr þessu sem skiptir máli hér þá verður að leggja mun meira fjármagn í þessi verkefni til að þau nái að rísa upp.

Þetta var hin prýðilegasta ferð, mun skila inn skýrslu til stjórnar Fjórðungssambandsins um ferðina á næsta fund, og mun reyna mitt besta að komast í betri tengsl við þá aðila sem ég hitti þarna úti og voru með góðar hugmyndir sem við mættum kynna okkur betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband