Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skoðanakönnun Fréttablaðsins - hræringar í pólitík!

Fréttablaðið birti skoðanakönnun í dag - þar kemur margt forvitnilegt í ljós.  Samfylkingin hrynur, VG stækkar, Framsókn er að hverfa, Frjálslyndir eru eins og fyrri könnunum og Sjálfstæðismenn eru nánast í kjörfylgi.  Ríkisstjórnin er fallin ef þetta gengur eftir í kosningunum í vor.  Vinstri menn fagna og biðla til framsóknar um að koma í kaffibandalagið.  Forvitnilegt að þingmaður samfylkingarinnar Björgvin G. Sigurðsson skyldi koma fram í Silfri Egils áðan og segja að framsóknarmenn ættu að koma til samstarfs við þá - fínt að hafa þá ef VG hleypur frá kaffiborðinu.

Það er mín skoðun að Framsóknarflokkurinn er að hverfa því þeir sjálfir hafi hafnað breytingum á flokknum með því að kjósa Jón Sigurðsson sem formann og Guðna Ágústsson sem varaformann.  Þeir eru báðir mætir einstaklingar en birtast kjósendum alveg eins.  Báðir miðaldra karlmenn sem tala jafn forna íslensku og að mínu mati jafn staðnaðir í tali og hugsun.  Tel varla að þeir nái hylli kjósenda í vor.  Reyndar er Guðni nú að há varnarbaráttu í kjördæminu sínu við Hjálmar og verður forvitnilegt að sjá hvernig það kemur út. 

Ég tel að flokkurinn væri allt annar ef félagar í flokknum hefðu haft kjark til að kjósa Sif til forystu.  Nei - það gerðist ekki og hvað gerist - Sif er horfin - fer ekki mikið fyrir henni nú í sviðsljósinu. 

Það eru farnar af stað skemmtilegar samsæriskenningar um Frjálslynda.  Á bloggsíðu Péturs Gunnarssonar kemur fram kenning - hann segir:

Ég var að heyra þá kenningu frá fólki sem ég veit að þekkir betur til en ég að samningur liggi fyrir milli Kristins H. Gunnarssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar um að Kristinn skipi 1. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi en Guðjón Arnar flytji sig um set og verði í fyrsta sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu

Ég var búin að heyra þetta líka - kannski að Kristinn haldi að hann hafi meira persónufylgi en Guðjón hér vestra, hver veit?  Það er mín skoðun að fylgi Frjálslyndra hér í kjördæminu sé persónufylgi við Guðjón - hvaðan á svo fylgið að koma ef Guðjón fer - úr Framsóknarflokknum.  Nei - ég held að Framsóknarmenn fylgi sér seint um Kristinn ef hann fer í raðið Frjálslyndra.  Margrét gæti líka sett strik í reikningin - hún gæti farið fram hér í kjördæminu og tekið eitthvað af fylgi Frjálslyndra vegna þess að hún á einnig hóp stuðningsmanna á þessu svæði.

Ég er reyndar ánægður með að Kristinn sé farinn úr Framsókn - hann fór og systir mín tók sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi - Svanlaug Guðnadóttir.  Öndvegis kona þar á ferð sem á framtíð fyrir sér á þessum vettvangi.

Annað sem mér fannst merkilegt í Silfri Egils í dag er að Valdimar Leó mætti með annað merki í barminum núna - merki Frjálslyndra, í þetta sinn gaf hann Agli ekki merkið.

Það er gaman að vera áhugamaður um pólitík þessa dagana - margt að gerast!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband