Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
31.8.2007 | 09:10
Þríþraut VASA2000
Á morgun, laugardaginn 1.september, fer fram þríþrautarkeppni VASA2000 og Heilsubæjarins Bolungarvík. Keppnin fer þannig fram að fyrst eru syndir 700m í sundlauginni Bolungarvík. Á eftir því er hjólað 17km frá Bolungarvík að Landsbankaplaninu á Ísafirði. Svo er hlaupið 7km inn í fjörð og til baka á Landsbankaplanið.
Ég hef aldrei tekið þátt í þessu móti þó að undanfarin ár hafi ég eitthvað verið tengdur þessu. Í fyrra t.d. reyndi ég að þjálfa nokkra keppendur fyrir átökin í sundlauginni. Það tókst svona la la því að a.m.k. einn sem æfði hjá mér var næstum drukknaður í lauginni í Bolungarvík í keppninni sjálfri.
Í ár hef ég tekið ákvörðun um að taka sjálfur þátt, er uppiskroppa með afsakanir fyrir því að taka ekki þátt og læt því slag standa.
Er alveg ágætur að synda, lélegur að hjóla en get bjargað mér á hlaupum. Þetta verður bara gaman og aðalmálið að taka þátt í þessu og klára þetta. Svo er alltaf gaman eftir á þegar þetta er búið.
Ég hvet alla ættingja, vini og kunningja að mæta nú á Landsbankaplanið og hvetja mannskapinn áfram.
Bið líka þá sem kynnu að vera á ferðinni á morgun í bíl að sýna keppendunum tillitssemi og víkja nú fyrir þeim - tillitssemi kostar ekkert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2007 | 13:29
Málað í skjóli nætur!
Það var frétt um það í vikunni á bb.is að vatnsveituhúsið í hlíðinni fyrir ofan Urðarveg hafi verið málað í skjóli nætur. Góð frétt um það þegar íbúi tekur sig til og málar húsið sem lengi hefur verið lýti á umhverfi sínu sökum viðhaldsleysis.
Ég hef reyndar komist að því að húsið var málað að kvöldlagi í júlí, þegar sólin skín allan sólarhringinn, þannig að ekki var þetta nú gert í skjóli nætur (smá útúrsnúningur). Það tók rúman mánuð fyrir bæjaryfirvöld að komast að því að húsið hafi verið málað. Ætli þeim hafi nú ekki verið bent á það að lokum.
Ég vil nota þetta tækifæri hér og þakka viðkomandi fyrir framtakið - takk fyrir að taka að þér verk sem umhverfissvið bæjarfélagsins átti með sanni að vera löngu búið að láta framkvæma. Það hefur jú staðið til nokkuð lengi að mála þetta hús. Alltaf hefur eitthvað annað verið tekið framfyrir það í forgangsröðinni og því hefur það staðið ómálað í nokkur ár.
Það sem mér finnst reyndar fáránlegt í þessari frétt eru athugasemdir Jóhanns Birkis, sviðsstjóra á umhverfissviði, að benda á fleiri eignir í eigu bæjarins sem jú mætti snurfusa aðeins ef aðrir hefðu áhuga á að taka að sér að framkvæma það í "skjóli nætur". Er það þannig að sviðsstjórinn ætlar að gefa út lista í byrjun hvers árs yfir eignir sem íbúar mega taka að sér og laga. Láta birta þennan lista á vef bæjarins með nánari útlistingu á því hvað beri að gera og leyfa íbúum svo að skrá sig við ákveðnar eignir. Kannski það sé leið til að ná niður kostnaði hjá bæjarfélaginu - "taktu að þér eign - sparaðu fyrir bæjarfélagið".
Tel að einfalt Takk hefði verið nóg hjá Jóhanni í þessu tilfelli og að biðja viðkomandi að gefa sig fram við bæjarskrifstofu þannig að hægt væri að borga honum til baka tilfallandi kostnað við verkið. Það er ekki á stefnuskrá yfirvalda bæjarfélagsins að láta íbúa standa straum af beinum kostnaði við viðhald eigna bæjarfélagsins á annan hátt en með greiðslu útsvars.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2007 | 01:29
Spurningarkeppni á RÚV ehf - hvert er vitrasta sveitarfélagið?
Þann 14.september n.k. mun sjónvarpið byrja með nýjan sjónvarpsþátt, ber heitið Spurningarkeppni Sveitarfélagana.
Þetta verður spurningarkeppni á milli sveitarfélagana og mun Ísafjarðarbær keppa ásamt 23 öðrum sveitarfélögum um titilinn "vitrasta sveitarfélagið".
Það verða þau Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir sem verða spyrlar og stjórnendur keppninnar.
Bæjarráð fól menningarmálanefnd að velja í liðið og hefur nefndin nú valið einstaklinga sem eiga að keppa fyrir hönd bæjarins í sjónvarpssal.
Liðið er þannig skipað:
Ólína Þorvarðardóttir, fyrrum skólameistari
Halldór Smárason, menntaskólanemi
Ragnhildur Sverrisdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu
Þannig er að við urðum, samkvæmt beiðni frá RÚV, að velja einn einstakling sem er "þjóðþekktur" einstaklingur sem á ættir sínar að rekja til Ísafjarðarbæjar. Ragnhildur varð fyrir valinu og erum við heppin að hafa hana í þessu liði.
Að mínu mati er þetta gríðarlega sterkt lið sem ég veit að á eftir að ná langt í þessari keppni.
Ekki veit ég með hvaða sniði hún verður - það verður víst dregið í næstu viku um hvaða sveitarfélög eiga að mætast í fyrstu umferð. Ég held að þetta sé útsláttarkeppni þannig að það lið sem tapar sé úr leik.
Nú er bara að fylgjast með hvaða sveitarfélagi við mætum fyrst og fylgjast svo með það föstudagskveld sem okkar lið mun keppa og mala andstæðinginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 13:35
Fjölgun gesta á Byggðasafnið
Byggðasafnið og húsin í Neðstakaupstað draga sífellt fleiri gesti til sín. Fjölgun gesta hefur aukist ár frá ári og eru um 8000 búnir að heimsækja safnið það sem af er þessu ári.
Þessi fjölgun segir okkur að það beri að flýta byggingu þeirri sem fyrirhugað er að rísa á svæðinu. Sú bygging sem á að reisa þar hafa gárungarnir nefnd "Hjörleifshöfða" en hún mun bæta til muna aðstöðu safnsins og stækkar sýningaraðstöðu safnsins til mikilla muna. Þar er fyrirhugað að verði góð sýningaraðstaða, móttaka gesta, fyrirlestrarsalur (sem hægt væri að nota til kennslu á veturna) og aðstaða fyrir safnverði.
Slík bygging þarf að rísa sem fyrst til að hægt sé að bjóða gestum upp á sýningu á fleiri munum í eigu safnsins. Í dag á safnið umtalsvert af munum sem eru í geymslu og hafa aldrei verið sýndir almenningi. Munirnir eru geymdir í geymslum hingað og þangað í bæjarfélaginu en með stærri sýningaraðstöðu væri hægt að vera með þessa muni til sýnis. Allt varðandi þetta hús er tilbúið, teikningar, deiliskipulag er klárt nú þarf ríkið að sjá hag sinn í því að leggja til fjármuni sem þarf til að reisa slíka byggingu til að við getum átt þess kost að auka við gesti á safninu næstu árin.
"Hjörleifshöfði" þarf að rísa hið fyrsta!
Bloggar | Breytt 25.8.2007 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 11:35
Losun gróðurhúsalofttegunda úr olíuhreinsistöð
Það hefur verið mikið rætt í fjölmiðlum að undanförnu, hversu mikið olíuhreinsistöð mun losa af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.
Það hefur verið rætt við umhverfisverndarsinna sem segja að losun þessara lofttegunda sé um 100 þús tonn á hverja milljón tonna sem unnið er af olíu í stöðinni. Í gær kom svo Umhverfisráðherra og sagði ef það væru réttar tölur þá myndi slík stöð ekki rúmast innan losunarheimilda Íslands samkvæmt Kyoto bókuninni.
Fulltrúar íslensks hátækniiðnaðar sögðu í vikunni að losunin um 50 þús. tonn en í frétt á bb.is í dag kemur fram að losunin séum 30 þús. tonn í þeim fullkomnustu stöðvum sem í dag væri verið að reisa. Var þar haft eftir fulltrúa Línuhönnunar sem er að vinna fyrir íslenskan hátækniiðnað og fjárfestingastofu um hagkvæmni þess að svona stöð rísi hér á landi.
Hverju á maður svo að trúa - fulltrúum umhverfisverndar, sem ekki vilja sjá svona stöð, eða fulltrúum fyrirtækisins, sem vilja svona stöð.
Það væri óskandi að báðir þessir aðilar geti nú komið sér saman um það að láta fara yfir þessar tölur og segja hver losunin sé í raun og veru frá svona stöð - ein tala sem báðir aðilar stæðu á bakvið. Það væri þá hægt að sækja um ákveðna losun og þá væri hægt að taka ákvörðun um hvort að við viljum svona stöð hingað vestur eða inn í landið yfir höfuð.
Þetta er s.s. eitt af þónokkur mörgum þáttum sem þarf að athuga áður en ákvörðun um slíka stöð verður tekin. Fjórðungssambandið er að láta taka saman fyrir sig ýmis gögn í málinu sem verða vonandi kynnt í byrjun september.
Bloggar | Breytt 25.8.2007 kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2007 | 16:44
Reykjavíkurmaraþon Glitnis
Er í Reykjavík þessa stundina til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Ég setti mér það markmið í byrjun sumars að hlaupa hálfmaraþon í þessu hlaupi og ég náði þessu markmiði í morgun.
Ég hljóp s.s. 21 km í morgun á tímanum 1:59 og er alveg sáttur við það þá maður vilji nú alltaf gera betur. Ég byrjaði full hratt og var nánast búin á því þegar ég sá 11km á skildi við veginn. Þrjóskan kom upp í mér og áfram hljóp ég, líkaminn vildi nú gefast upp á tímabili en hugurinn sagði NEI og hugurinn vann. Verð nú að viðurkenna að það var erfitt fyrir hugann þegar eldri karlmenn og konur sigu framúr mér á leiðinni, var gráti næst þegar um 70 karlmaður skokkaði svakalega létt framúr mér og ég fékk það á tilfinninguna að ég væri í raun stopp.
Ég er sáttur við að ljúka þessu hlaupi og mun koma aftur að ári og reyna að gera enn betur.
Það er viss stemming í þessu hlaupi. Rúmlega 2000 manns voru ræstir samtímis í 21 km og 42 km og létt var yfir mannskapnum í blíðskaparveðri.
Nú ætla ég að skella mér niður í bæ til að soga í mig menningu borgarinnar - úti er menningarnótt og veðrið er yndislegt.
Góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2007 | 22:47
Til hamingju Vesturbyggð
Nú er bara vonandi að þetta komi til með að verða að raunveruleika, séu öllum lagaákvæðum fylgt - hvort sem það verði byggt í Landi Hvestu í Arnarfriði eða á Söndum í Dýrafirði - sem er sá staður sem einnig kom til greina eftir frumathugun.
Fjórðungssamband Vestfirðinga er að vinna að þessu máli og mun skila af sér skýrslu í september. Niðurstaða þeirra skýrslu verður vonandi síðan kynnt á opnum fundi með íbúum bæjarfélagana tveggja (Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar).
Vesturbyggð hefur nú hafið skref í átt að því að stöðin geti risið í landi Hvestu og vil ég óska þeim til hamingju með það.
Leyfa byggingu olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2007 | 22:41
Akstur utan vega
Nú er vegurinn um Öldugilsheiði yfir í Leirufjörð aftur kominn í fréttirnar - nú vegna aksturs jeppabifreiðar yfir hann sem síðar lendi í ógöngum í Leirufirði, samkvæmt þessari frétt á bb.is.
Mikið hefur nú verið rætt og ritað um þennan blessaða slóða. Ég hef ritað um það hér að ég vil að sá sem hann gerði lagfæri landið eftir sig og sjái sóma sinn í því að framkvæma það tafarlaust.
Sá sem þennan slóða gerði hefur lokað leiðinni með hliði - hann hefur síðan einn lykil að því. Eitthvað virðist hliðið hafa opnast því umrædd jeppabifreið komst yfir heiðina og komst síðan í ógöngur í Leirufirði. Samkvæmt fréttinni hefur síðan eigandi bifreiðarinnar fengið til sín stórvirkar vinnuvélar til aðstoðar við að losa hann úr drullu sem hefur eflaust haft í för með sér mikið jarðrask á þessum slóðum.
Orðið vegur er skilgreint í 2.gr. umferðarlaga nr.50/1987. Samkvæmt því er vegur: vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðarstæði eða þess háttar, sem notað er til almennrar umferðar. Í vegalögum nr. 45/1994 er skýrt tekið fram hvað séu vegir. Í 7.gr. laganna segir að þjóðvegir séu þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og upp eru taldir í vegaáætlun, safnvegaáætlun og landsvegaskrá. Ekki er litið á að vegaslóðar, sem hafa orðið til vegna aksturs utan vega, teljist til vega, því er akstur á slíkum vegslóðum bannaður.
Einnig má benda á að í 2.gr. reglugerðar nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum kemur fram að allur akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta hlotist af er bannaður. Með náttúruspjöllum er meðal annars átt við spjöll á gróðri, jarðvegum og jarðmyndunum, myndun nýrra slóða, hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu og skiptir ekki máli hvort líkur eru á varanlegum skaða eða tímabundnum.
Svona akstur á að kæra hiklaust. Svona atferli á ekki að líðast og því ber bæjaryfirvöldum að kæra þann einstakling sem er eigandi umræddar bifreiðar - þar sem hann ber ábyrgð á ökutækinu. Nú er bara að finna það út hver á umrædd ökutæki og kæra hann fyrir akstur utan vega.
Bloggar | Breytt 16.8.2007 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2007 | 19:41
Veðurfréttir í sjónvarpinu
Hafið þið tekið eftir því að veðurfréttamenn standa alltaf fyrir yfirlitsmyndinni af Austurlandi þegar þeir segja fréttir af veðrinu í sjónvarpinu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2007 | 19:37
Sumarfríið!
Nú hef ég verið í sumarfríi í þrjár vikur og því hefur ekki verið mikið um færslur á síðuna.
Fjölskyldan ferðaðist um landið - við heimsóttum austur-, norður- og suðurlandið.
Það er ávallt gaman að ferðast og skoða landið en synd hversu dýrt það er orðið.
Við fengum alveg ágætisveður en ég held samt að besta veðrið hafi verið hér á Vestfjörðum í sumar.
Nú mun ég hefja að nýju skrif á síðuna eftir þetta sumarfrí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar