Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ný ríkisstjórn

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð saman með Samfylkingunni - það hefur verið ritaður stjórnarsáttmáli og flokkarnir hafa tilkynnt hverjir eiga að vera ráðherrar í nýrri "viðreisnarstjórn".

Mér líst svona ágætlega á ráðherrana - það er þó nokkuð sem kemur mér á óvart. 

Persónulega finnst mér furðulegt val Geirs að halda Birni Bjarnasyni áfram og setja Sturla út.  

Ég hefði viljað sjá Sturla sem ráðherra áfram.  Hann hefur staðið sig mjög vel í Samgönguráðuneytinu. Hann hefur sýnt það og sannað að hann er kröftugur og góður einstaklingur sem hefur komið mörgu góðu til leiðar í setu sinni sem ráðherra.  

Annað sem mér finnst athugavert við ráðherraskipan míns flokks er að það er eingöngu ein kona.  Nú á 21.öldinni hefði ég talið það vera mjög sterkt fyrir flokkinn að velja aðra konu til áhrifa. Einstaklingar eins og Guðfinna, Ásta Möller og Arnbjörg Sveinsdóttir eru konur sem koma vel til greina í slík embætti að mínu mati.  Það var mikil umræða um ráðherraskipan eftir kosningarnar 2003 en þá stóð Davíð sig ekki í því að veita konum brautargengi í sinni ríkisstjórn.   Mér finnst flokkurinn ekki vera að standa sig í þessum málum - þetta kemur mjög illa út, mjög illa.

Mér finnst Ingibjörg og Samfylkingin hafa komið vel út í gær.  Ingibjörg gaf sér góðan tíma til að svara fjölmiðlum, hún stóð við jafn kynjahlutfall ráðherra og mikil gleði ríkti í þeirra herbúðum.  Geir aftur á móti svaraði ekki vel spurningum fréttamanna, nánast hljóp í burtu og svaraði ekki spurningunum.  Konur í flokknum voru reiðar - þó þær styðja sitt fólk og eitthvað fát virtist á mannskapnum þegar fréttamenn spurðu spurninga eftir fundinn.  Svo eftir að hafa lesið sáttmála ríkisstjórnarinnar þá hefur Samfylkingin fengið að setja mjög mörg af sínum kosningarloforðum en ekki svo mikið finnst mér hafa verið sett fram af okkar hálfu.  S.s. mér finnst Samfylkingin hafa styrkst eftir daginn í gær en minn flokkur kom ekki vel út, þvi miður.

Ánægjulegt er að Einar Kristinn skuli halda ráðherraembætti sínu og bætir við sig landbúnaðarmálunum sem er vel.  Einar Kristinn hefur sýnt það, á skömmum tíma í ráðherrastól, að hann er að standa sig afar vel.

Eftir að hafa staðið nokkuð vel að undirbúningi nýrrar stjórnar finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið sig nokkuð illa í að kynna ráðherra fyrir landanum.


Kærar þakkir

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hjálpuðu mér að halda úti kosningaskrifstofunni hér á Ísafirði. 

Það er einvala lið sem kom að þessum sigri okkar Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.  Hart var að okkur sótt en við stóðumst atið og stöndum nú uppi sigurvegarar þessara kosninga ásamt Vinstri grænum.

Ég vil þakka öllum enn aftur fyrir allt - þið eruð frábær!

 


Fjölmenni við kynningu á Vestfjarðarskýrslunni

Við sjálfstæðismenn fengum Halldór Halldórsson, bæjarstjóra, til að kynna skýrslu nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum í hádeginu í gær, mánudag, í kosningarmiðstöðinni í Silfurgötu.

Það voru um 100 manns sem komu til að hlýða á orð Halldórs og til að gæða sér á ljúffengri súpu.

Halldór kynnti hvernig starfið í nefndinni var háttað, hvernig skýrslan er uppsett og síðan fór hann yfir nokkrar tillögur og útskýrði hvernig ætti að koma þeim í framkvæmd.

Halldór sagði frá því að nefndin hafi fundað með aðilum í sveitarstjórnum, atvinnulífinu og stofnunum um alla vestfirði.  Inn á borð nefndarinnar komu fullt af tillögum sem farið var yfir af nefndarmönnum.  Eftir yfirferð þar voru tillögurnar sendar í ráðuneytin til yfirferðar.  Frá ráðuneytunum komu síðan þær 37 tillögur sem getið er sérstaklega um í skýrslunni.  Þessar tillögur eru frá ráðuneytunum og samþykktar inn í viðeigandi ráðuneyti og þeim á að framfylgja þar.  Þess má geta að sjávarútvegsráðuneytið hefur nú þegar auglýst þrjár stöður hjá Matís sem getið er um í skýrslunni.  Halldór lét þess getið í gær að formaður nefndarinnar, Halldór Árnason, hafi óskað eftir því við forsætisráðherra að nefndin héldi áfram störfum og sæi til þess að eftir skýrslunni yrði unnið.  Forsætisráðherra tók vel í þá hugmynd og mun því nefndin starfa áfram.

Að lokinni yfirferð á skýrslunni svaraði Halldór spurningum fundarmanna og sköpuðust fjörugar umræður um m.a. olíuhreinsistöð, Háskóla á Ísafirði, fangelsi á Núpi, hvort að um enn eina skýrslu væri að ræða sem ekki ætti að fara eftir og fl.  Halldór svaraði þessum spurningum og fór inn á fleiri efni sem tengist t.d. íbúakosningu í tengslum við olíuhreinsistöð.

Margir einstaklingar hafa haldið því á lofti undanfarið að ekki eigi að vinna eftir þessari skýrslu og því um marklaust plagg að ræða.  Ég segi að slíkt segi einstaklingar sem ekki hafa hana lesið né kynnt sér efni hennar og hvernig að henni var unnið.  Það hefur komið margsinnis fram, alveg frá upphaflegri kynningu á innihaldi hennar fram á þennan dag, að eftir tillögum skýrslunnar á að vinna.  Ríkisstjórn og ráðuneyti hennar hafa samþykkt framkomnar tillögur í skýrslunni og hafa því skuldbundið sig til að vinna að framgangi þeirra.  Ég tel að hvaða ríkisstjórn sem tekur svo við völdum hér eftir 12.maí geti ekki annað en unnið eftir henni og séð til þess að þær tillögurnar  komist í framkvæmd.

Kynningin fór fram að beiðni okkar sjálfstæðismanna en fram kom að Halldór og aðrir nefndarmenn væru reiðubúnir til að kynna skýrsluna sem víðast, væri eftir því leitað.

Fundurinn var haldinn í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði og var sá fyrsti í röð súpufunda sem haldnir verða fram að kosningum. Næsti fundur verður haldinn á fimmtudaginn kemur (3.maí) og þá situr Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, fyrir svörum um efnahagsmál.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband