Leita í fréttum mbl.is

Olíuhreinsistöð

Olíuhreinsistöð eða ekki olíuhreinsistöð hefur verið mál málana þessa dagana.  Mikið hefur verið rætt um þetta þar sem ég hef komið og sitt sýnist hverjum.  Við lestur bloggsíðna þá sýnist mér einnig að aðilar skiptast í tvær fylkingar, með og á móti þessu fyrirbæri.

Ég lét hafa eftir mér á bb.is í vikunni að ekki væri hægt að hafna þessu algerlega án þess að skoða þetta betur.  Það er erfitt fyrir hvaða sveitarfélag sem er að skoða ekki einu sinni hvort og þá hvernig hægt væri að koma starfsemi sem þessari fyrir.

Mér finnst það hinsvegar skipta miklu máli hvernig þessi starfsemi kemur til með að falla að þeirri ímynd sem við viljum hafa hér á Vestfjörðum - viljum við hafa stóriðjulausa Vestfirði og þá hvernig skilgreinum við hvað er stóriðja og hvað er ekki stóriðja. 

Ég játa það alveg að þegar ég heyrði þetta fyrst þá sagði ég þvert nei - svona á ekki heima hér á landi.  Þegar ég svo velti þessu fyrir mér og hugsa meira og meira um þetta þá er þessi hugmynd ekki svo galin.  Ég tek það hinsvegar fram að ég veit nánast ekkert um hvernig slíkt fyrirbæri rekur sig, ekki nema það sem hefur komið fram í fréttum í vikunni um málið. 

Ég vona nú að allra næstu daga muni fulltrúar þessa fyrirtækis koma hingað vestur til að halda fund með íbúum og kynna þessa hugmynd.  Leyfa okkur að vita hvað í þessu felst og hvað þetta muni þýða fyrir okkur hér.

Þetta má að minnsta kosti skoða og velta fyrir sér - staðsetning er kannski ekki aðalmálið að svo stöddu heldur hvort þessum mönnum er alvara og þá hvort að við viljum fá svona fyrirtæki hingað vestur eður ei.

Einhverjar samsæriskenningar hafa komið fram í vikunni um að nú séu stjórnvöld að blása ryki í augu íbúa með því að koma með svona galna hugmynd fram.  Ég blæs á allar slíkar kenningar og vísa þeim til föðurhúsana.  Okkur ber að skoða allar þær hugmyndir sem koma fram til að efla hér byggð, hvort sem hún er gömul eða ný af nálinni.  Vona að allir aðilar komi sér a.m.k. saman um það að skoða beri málið nánar og taka svo ákvörðun út frá því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband