Leita í fréttum mbl.is

Óskemmtileg reynsla

Þegar mál eru til meðferðar í bæjarráði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gengur stundum ýmislegt á. 

Eins og gefur að skilja eru nokkrar hliðar á nánast öllum málum og sitt sýnist hverjum um þá afgreiðslu sem síðan bæjarráð/bæjarstjórn tekur. 

Það er ýmislegt sem gengur á, á meðan málin eru í vinnslu, margir hringja í bæjarfulltrúa og segja sína hlið á málinu, koma í heimsókn með gögn og útskýra sín mál og allir fram að þessu hafa verið mjög málefnalegir og kurteisir þegar þeir leggja sína skoðanir fram. 

Þetta hefur verið mér sem bæjarfulltrúa ómetanlegt við vinnu mína.  Þetta hefur gefið mér tækifæri til að heyra skoðanir þeirra sem að málinu koma áður en ég tek ákvörðun í málinu.  Ég tek síðan ákvörðun í málum út frá minni eigin sannfæringu þrátt fyrir að hafa fengið að heyra annað í gegnum tíðina.

Í gær varð ég og fjölskylda mín reyndar fyrir mjög óskemmtilegri reynslu. 

Það er mál til meðferðar í bæjarkerfinu sem ríkir óánægja með hjá aðilum tengdum því.  Ég var að koma af sjúkrahúsinu, var þar í heimsókn hjá veikum ættingja. Þegar aðili að þessu máli tók mig tali.  Sá einstaklingur var kurteis í fyrstu, útskýrði sína hlið málsins sem hefur margoft komið fram.  Ég sagði viðkomandi mína skoðun á málinu og þá byrjuðu upphrópanir og skammir sem enduðu með fúkyrðum og svívirðingum í minn garð.  Ég kippti mér ekki upp við þetta - þetta hefur komið fyrir og þvi miður alltaf jafn sorglegt þegar einstaklingar hafa ekkert annað fram að færa nema persónulegar árásir á einstaklinga sem eru að reyna að vinna sína vinnu að bestu sannfæringu.

Því miður tók ekkert  betra við!

Ég gekk áleiðis heim og náði þar í þrjú börn og ferðinni var heitið niður í bæ.  Þegar ég var kominn áleiðis niður í bæ kom sami einstaklingur, sem ég sagði frá hér að ofan, stökk út úr bíl sínum og fór að ausa yfir mig fúkyrðum, svívirðingum og blótsyrðum sem gerðu það að verkum að börnin sem ég var með urðu dauðskelkuð og vildu forða sér í burtu.  Það gerðum við og forðuðum okkur. 

Börnin urðu vör um sig eftir þetta en því miður þá gerðist þetta aftur - ég átti erindi á bæjarskrifstofurnar og þar kom umræddur einstaklingur og jós ennþá meiri og verri fúkyrðum að mér sem börnin urðu aftur vitni af.  Farið var með börnin í burtu á meðan ég reyndi að ræða við einstaklinginn og reyndi að láta hann átta sig á því að það eru tími og staður fyrir allt - þetta væri ekki tíminn og staðurinn til að láta svona.  Það gekk ekki eftir og viðkomandi jós ennþá fleiri svívirðingum í minn garð þegar ég gekk í burtu.

Ég hef fram að þessu aldrei upplifað annað eins sem bæjarfulltrúi í þessu bæjarfélagi.  Fólk hefur haft sterkar skoðanir á sínum málum, sem er vel og kann ég að meta slíkt.  Samt þegar fólk hefur ekkert fram að færa nema persónulegar árásir á mig og mína fjölskyldu þá er mér nóg boðið.  Ég tilkynnti umrætt tilfelli til lögreglu því mér er ekki sama hvað fólk gerir og segir þegar ég er með börn mín og fjölskyldu nærri.

Börnin urðu skelkuð og það tók talsverðan tíma í gær að róa þau niður og reyna að útskýra fyrir þeim hegðun einstaklingsins.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Jónsson

Þú verður að fá nálgunarbann!! En þetta er nú alveg út fyrir öll velsæmismörk.

Karl Jónsson, 3.4.2007 kl. 14:00

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þetta er lýsing á nokkuð dæmigerðri þráhyggju, að mér virðist. Hún getur birst í sjúklegum myndum. En - þú ættir að prófa að vera blaðamaður eða fréttamaður í mánuð eða svo!

Hlynur Þór Magnússon, 3.4.2007 kl. 19:15

3 identicon

Já oft er nú talað um borg óttans og þá átt við Reykjavík, við búum kannski í bæ óttans þar sem búast má við árásum við hvert húshorn. Ég vona nú samt að þetta sé einangrað tilfelli og við getum öll búið í sátt og samlyndi í Ísafjarðarbæ. Rólegheit og friðsemd bæjarins er ástæða þess að ég bý hér enn eftir 11 ár.

Kveðja Stefán T.

Stefán Torfi (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 19:40

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

                             Kæri Ingi Þór.

  Þetta er óskemmtileg reynsla sem þú  og sérstaklega börnin þín  verða fyrir börn eru svo viðkvæm og oft lengi að  vinna úr svona málum. Gangi ykkur allt í haginn.

                          Kær kveðja   MILLA.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.4.2007 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband