Leita í fréttum mbl.is

Starfshópur um tölvumál Ísafjarðarbæjar

Í bæjarráði á fimmtudaginn var lagði Sigurður Pétursson fram ósk um að fá skýrslu um störf tölvunefndar Ísafjarðarbæjar.

Umrædd tölvunefnd heitir í raun starfshópur um tölvumál Ísafjarðarbæjar og ég veiti þessum starfshóp formennsku.

Það má segja að undarfari þess að þessi starfshópur var stofnaður var að starfsmenn Ísafjarðarbæjar kvörtuðu sáran yfir því hversu tölvukerfið væri seint og hversu illa það starfaði.  Mikill tími fór í að bíða eftir svari frá tölvubúnaðinum og af því hlaust vinnutap.  Einnig voru samskipti oft á tíðum stirð á milli þeirra aðila sem sinntu tölvumálum Ísafjarðarbæjar og þeir vísuðu hver á annan þegar kerfið lá niðri vegna bilana.

Núverandi starfshópurinn var skipaður árið 2005 og í honum sitja, ásamt mér, Jóhann Hinriksson, Þórir Sveinsson, Védís Geirsdóttir og Skarphéðinn skólastjóri. 

Í upphafi urðum við að gera okkur grein fyrir því hvernig tölvukerfið væri í raun og veru.  Nokkru áður hafði kerfisfræðingur farið yfir nokkurn hluta kerfisins og gaf hann þeim hluta mjög slæma einkunn.

Við létum gera ítarlegri skýrslu um tölvukerfið í heild sinni og kom þá í ljós að kerfið var í raun ónýtt. 

Í kjölfarið á þeirri skýrslu létum við EJS ehf. vinna fyrir okkur að framtíðarsýn í tölvumálum Ísafjarðarbæjar. 

Eftir þessa vinnu skilaði starfshópurinn áfangaskýrslu til bæjarstjórnar þar sem kom fram hvernig starfshópurinn sá fyrir sér uppbyggingu tölvukerfisins á næstu árum.  Út frá þeirri framtíðarsýn hefur verið unnið í bráðum tvö ár.

Í áfangaskýrslunni kom fram að starfshópurinn vildi byggja upp tölvukerfið, samræma það og gera það hraðara, samræma innkaup á tölvubúnaði, fjárfesta í heimasíðu, ráða kerfisfræðing til að þjónusta kerfið, setja upp "Minn Ísafjarðarbær" fyrir íbúa og búa til svæði fyrir bæjarfulltrúa.  Einnig var fjallað um að Ísafjarðarbær ætti að fjárfesta í IP-símkerfi og draumurinn væri að gera Ísafjarðarbæ að "Hotspot".

Allt þetta hefur í raun verið framkvæmt á síðasta ári og það sem af er liðið af þessu.  Við keyptum heimasíðu af EcWeb, keyptum mjög fullkomið tölvukerfi sem skilar miklum hraða og við þjónustum það algerlega sjálf, við réðum kerfisfræðing sem hefur samræmt innkaup, keyptum IP-símkerfi og með því getum við í raun gert Ísafjarðarbæ að "Hot spot" í framtíðinni. 

Við höfum ekki ennþá ráðist í það að gera svæði, eða svokallaðan "Minn Ísafjarðarbæ", þar sem smá hnökkrar komu upp við að láta forrit "tala saman".

Ég vil meina að það sem hefur verið fjárfest fyrir að undanförnu skili sér til baka á næstu árum.  Það kemur til baka í því að tímasparnaður verður hjá starfsfólki, hagstæðari innkaup verða á tölvubúnaði, ódýrt er að hringja á milli stofnana og einnig er þjónustan við íbúana orðin miklu betri en hún var.

Næstu skref, sem hafa verið rætt í starfshópnum, er að tölvuvæða Grunnskóla Ísafjarðarbæjar betur.  Hugmyndir hafa verið uppi að láta alla kennara hafa fartölvur til að vinna við í skólanum eða setja tölvur upp í aðstöðu kennara og í skólastofum.  Einnig ber að koma góðri tölvuaðstöðu í skólanum sem nemendum hafi aðgang að.  Þar verði tryggt að nemendur geti lært á fullkomnasta búnað sem völ er hverju sinni.

Það er mín skoðun að vel hafi verið unnið í starfshópnum.  Við höfum greind vandamálin, fundið lausnir við þeim og leyst þau. 

Ég tel að starfshópurinn muni ekki starfa nema fram á sumarið en þá mun hann skila inn lokaskýrslu þar sem tekið verður saman að hverju hefur verið unnið frá því að áfangaskýrslan var lögð fyrir og hvernig til hefur tekist.

Ég vona að minnihlutinn starfi saman með meirihlutanum að því að halda áfram að byggja upp tölvukerfi sem svarar kalli nútímans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband