Leita í fréttum mbl.is

Borgarafundur - lifi Vestfirðir!

Á sunudaginn kemur kl. 14 verður haldinn opinn borgarafundur um atvinnumál á Vestfjörðum í hömrum.

Fundurinn ber yfirskriftina Lifi Vestfirðir

Ég fagna því að þessi fundur sé haldinn og vona að íbúar fjölmenni og láti í ljós skoðun sína á þessu mjög svo mikilvæga málefni.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sameinaðist á síðasta fundi sínum um tvær ályktanir um þessi mál.  Annarsvegar var það tillaga okkar meirihlutamanna sem er þannig:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir tillögur bæjarráðs vegna atvinnumála. Þess er krafist af hálfu bæjarstjórnar að ríkisstjórnin bregðist við þessum tillögum nú þegar enda fjalla þær um átak í málaflokkum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að vinna. Flutningur 100 opinberra starfa á tveimur árum til byggðakjarnans Ísafjarðar er í samræmi við samþykkta stefnu ríkisstjórnarinnar. Stefnu sem ekki hefur verið unnið eftir heldur hefur opinberum störfum þvert á móti fækkað á undanförnum árum á sama tíma og þeim fjölgar í höfuðborginni.
Tilvera framleiðslufyrirtækja á Vestfjörðum byggir á því að hægt sé að flytja hráefni að og frá. Þar er flutningskostnaður farinn að hamla verulega, svo verulega að fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði telja kostnaðinn alvarlega ógnun við starfsemi þeirra. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur lífsnauðsynlegt fyrir vestfirskar byggðir að ríkisstjórnin jafni flutningskostnað þannig að fyrirtækin séu jafnsett hvað þann þátt rekstrarins varðar.

Þessi tillaga var samþykkt 9-0

Tillaga minnihlutans var svohljóðandi:

,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vill í tilefni af síðustu atburðum í atvinnumálum bæjarins lýsa yfir áhyggjum af stöðu atvinnulífs á svæðinu og hvetja til sameiginlegs átaks ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja til eflingar atvinnulífi og byggð á Vestfjörðum.
Ákvörðun stjórnenda Marels hf. að hætta starfsemi fyrirtækisins á Ísafirði frá og með 1. september næstkomandi er mjög alvarleg atlaga að atvinnulífi bæjarins. Í rúma þrjá áratugi hefur á Ísafirði verið þróun framleiðsla á rafeindabúnaði í tengslum við fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu á Vestfjörðum. Margþætt reynsla og þekking hefur verið byggð upp í þessu samstarfi, sem fram kom meðal annars í hinum víðþekktu Póls-skipavogum og fleir framleiðsluvörum byggðu á hugviti og framtaki heimamanna. Fyrir réttum þrem árum keypti Marel hf. fyrirtækið Póls hf. á Ísafirði og ári síðar voru félögin sameinuð. Með því eignaðist Marel hf. þróunarvinnu og þekkingu sem byggst hafði upp á löngum tíma hér á Ísafirði. Fyrir þremur árum lýstu eigendur og stjórnendur fyrirtækisins því yfir að ekki stæði til að flytja starfsemina burtu úr bænum. Nú hefur annað komið á daginn og með ákvörðun sinni hafa forráðamenn Marels hf. brugðist vonum og trausti Ísfirðinga. Allt tal um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja eru orðin tóm.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur að með lokun Marels hf. á Ísafirði sé vegið að undirstöðum atvinnulífs á staðnum og uppbygging iðnaðar á sviði hátækni og hugvits greitt þungt högg. Til að bregðast við þessu heitir bæjarstjórn á stjórnvöld að koma þegar í stað til liðs við íbúa Ísafjarðarbæjar og annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum til að efla nýsköpun og rannsóknir sem veita munu nýjum verkefnum og nýjum atvinnutækifærum brautargengi. Miklir möguleikar eru á Vestfjörðum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, rannsókna á umhverfi, loftslagi og búsvæðum hafsins og iðnaði tengdum þeim greinum. Til að nýta þessa möguleika er nauðsynlegt að stjórnvöld beini fjármagni til þessara verkefna. Jafnframt þurfa bráðnauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum og fjarskiptum að fá algeran forgang frá hendi ríkisvaldsins, til að brúa það bil sem myndast hefur í umhverfi fyrirtækja á Vestfjörðum miðað við aðra landshluta.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að algera hugarfarsbreytingu þarf og pólitíska samstöðu hjá ráðamönnum landsins til að snúa við óheillaþróun síðustu ára.  Bæjarstjórnin hvetur alla stjórnmálaflokka til að styðja framkomnar tillögur heimamanna í atvinnumálum og stuðla þannig að eflingu byggðar á Vestfjörðum. Nú þarf stórátak í stað smáskammta. Segja má að loksins sé röðin komin að Vestfjörðum.“

Þessi tillaga var einnig samþykkt 9-0


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband